Hér verða reifuð mismunandi sjónarmið er lúta að faraldri COVID-19 og hvaða hagsmunir er varða lýðheilsu, vegast á. Einhverjum finnast aðgerðir ekki nógu harðar. Öðrum finnast aðgerðir of harðar og ræða hvort rétt sé að fara leið að hjarðónæmi. Það er mat okkar að fórnarkostnaður við leið hjarðónæmis verði allt of hár eins og rakið verður. Álit okkar er að best sé að halda áfram aðgerðum við að halda veirunni í skefjum, en með sem minnstri röskun á daglegu lífi, þar til bóluefni er fram komið. Annað sem vinnst við að þreyja þorrann er að þekking á meðferð og sjúkdómnum eykst, m.a. á langtímaáhrifum. Þá er hugsanlegt að veiran veiklist með tímanum líkt og gerðist í spænsku veikinni þó enn séu engin merki um slíkt.

Fyrsta bylgjan og COVID-19

Í fyrstu bylgju hérlendis greindust um 1.800 manns með veiruprófi og síðar 1.800 til viðbótar með mótefnamælingu, samtals 3.600 manns eða 1% þjóðarinnar. Af þeim hópi þurftu um 115 innlögn á sjúkrahús eða 3,2%, 30 þurftu meðferð á gjörgæsludeild eða 0,8% og 10 létust eða 0,3%. Þá er ljóst að margir sem veiktust lítið meðan veiran gekk glíma við langvinn einkenni og sumir eru enn óvinnufærir. Hvorki er þekkt hve stór sá hópur er né hve lengi einkenni munu vara en rannsóknir standa yfir.

Það getur hins vegar reynst erfitt að greina áhrif sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu frá beinum áhrifum faraldursins.

Þegar farsóttin skall á var samstaða um að verja nauðsynlega innviði, ekki síst heilbrigðiskerfið og vernda viðkvæma hópa. Árangur Íslands byggði á víðtækum aðgerðum: upplýsingum til almennings, áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir, snemmgreiningu og einangrun sýktra, markvissu eftirliti ásamt snemmtækri íhlutun við versnun veikinda, smitrakningu, beitingu sóttkvíar og samfélagslegum aðgerðum. Samfélagslegar aðgerðir fólu í sér heimsóknabann á hjúkrunarheimilum, samkomutakmarkanir, lokun mennta- og háskóla, lokun þjónustu með mikilli nánd og takmörkun á annarri en nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Embætti landlæknis hefur fylgst með heilsu og líðan landsmanna á tímum COVID og áhrifum á heilbrigðisþjónustuna. Niðurstöður frá fyrstu bylgju eru birtar í Talnabrunni á landlaeknir.is. Gögnin benda til að af leiðingar þeirra aðgerða sem gripið var til hérlendis hafi verið mildar og niðurstöður frá rannsókninni Líðan þjóðar á tímum Covid-19 benda í sömu átt. Þó er hugsanlegt að tafir hafi orðið í greiningum sjúkdóma og að afleiðingar komi síðar í ljós. Nefnt skal að lögreglan merkti aukningu of beldis og að sóttvarnaaðgerðir geta hitt ákveðna hópa verr fyrir. Mikilvæg staðreynd er að heildarfjöldi dauðsfalla er ekki meiri það sem af er þessu ári samanborið við meðaltal undanfarinna tíu ára.

Langtímaáhrif sóttvarnaráðstafana?

Þótt áhrif sóttvarnaaðgerða hérlendis á lýðheilsu virðist væg til skemmri tíma litið, er ástæða til að óttast langtímaáhrif ef ástandið dregst. Áhrif sóttvarnaaðgerða á lýðheilsu til lengri tíma eru ekki þekkt en gætu hugsanlega verið: verri heilsuhegðun, t.d. minni hreyfing og svefn, verra mataræði og aukin streita og minni heilbrigðisþjónusta ef minnka þarf framboð þjónustu og/eða fólk veigrar sér við að leita þjónustu. Fleiri afleiðingar gætu verið aukin félagsleg einangrun og einmanaleiki, of beldi, kvíði og áhyggjur. Þá gæti meira atvinnuleysi og fátækt valdið neikvæðum af leiðingum fyrir heilsu og líðan. Það getur hins vegar reynst erfitt að greina áhrif sóttvarnaráðstafana á lýðheilsu frá beinum áhrifum faraldursins.

Enn fremur myndi leið hjarðónæmis valda miklum usla í samfélaginu almennt; erfitt yrði að tryggja nauðsynlega innviði og þjónustu ef stór hluti landsmanna væri veikur.

Embætti landlæknis fylgist með ákveðnum þáttum líðanar, heilsu og heilbrigðisþjónustu. Embættið skortir hins vegar innsýn í óbein áhrif faraldursins er varða t.d. af leiðingar of beldis, umfang atvinnuleysis og tekjumissis, áhrif mótvægisaðgerða stjórnvalda og ýmis heilsuhagfræðileg áhrif. Þá þarf að vega inn áhrif á skólastarf, menningarlíf o.fl. Landlæknir hefur því lagt til að stofnaðir verði þverfræðilegir og þverstofnanalegir hópar sem fái það hlutverk að vakta og meta áhrif á lýðheilsu. Lýðheilsuvaktin væri ákveðin hliðstæða við Velferðarvaktina sem stofnuð var eftir bankahrunið. Þá er ljóst að bágt efnahagsástand mun að sjálfsögðu geta endurspeglast í verri heilsu og minni heilbrigðisþjónustu.

Leið hjarðónæmis

Smitstuðull veirunnar er talinn vera 2,5-6. Ef hann er 2,5 þurfa 60% þjóðarinnar að smitast til að ná hjarðónæmi, ef smitstuðull er 6, þá 83%. Ef 60% þjóðarinnar (219.000 manns) sýkjast þá gætu 7.000 einstaklingar þurft innlögn á sjúkrahús, um 1.750 innlögn á gjörgæsludeild og 660 látist, miðað við hlutfallstölur frá fyrstu bylgju. Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt er augljóst að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur yrðu mun hærri. Í nýju, finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 þúsundum smita næstu tvo og hálfan mánuð hérlendis, ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi og myndu allt að 3.000 einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember. Hafa þarf þetta í huga þegar sóttvarnaráðstafanir verða ákveðnar næstu mánuði.

Auk áhrifa á heilbrigðisþjónustu vegna COVID-19 yrði ekki hægt að halda uppi heilbrigðisþjónustu vegna annarra sjúkdóma. Besta leiðin til að geta veitt þá heilbrigðisþjónustu sem landsmenn þurfa er að halda smiti niðri í samfélaginu. Enn fremur myndi leið hjarðónæmis valda miklum usla í samfélaginu almennt; erfitt yrði að tryggja nauðsynlega innviði og þjónustu ef stór hluti landsmanna væri veikur. Þetta sást skýrt í þeim löndum sem urðu harðast úti í byrjun faraldursins.

Great Barrington-yfirlýsingin

Yfirlýsing sem kennd er við Great Barrington hefur verið nokkuð til umræðu. Þar er gengið út frá því að mjög harðar sóttvarnaaðgerðir, það er útgöngubönn og lokanir skóla, kæmu illa niður á lýðheilsu ef þeim væri viðhaldið þar til bóluefni er fram komið. Þar er því mælt með að farin verði leið hjarðónæmis. Lögð yrði áhersla á að vernda þá eldri og fólk í áhættuhópum eins og kostur væri með því að láta fólk sem þegar er með ónæmi sinna hinum eldri, með tíðum skimunum og lítilli starfsmannaveltu. Eldra fólk fengi heimsendingu af vörum og héldi sig almennt til hlés. Vert er að nefna að líklega eru aldraðir og áhættuhópar minnst fimmtungur Íslendinga, lauslega áætlað. Í þessari nálgun væri gert ráð fyrir að ungt fólk fengi að lifa eðlilegu lífi. Það gætti einstaklingsbundinna sóttvarna, skólar yrðu opnir og íþróttir leyfðar. Veitingahús og öll þjónusta sem og menningartengdir viðburðir héldu áfram.

Óumdeilt þykir að harðar sóttvarnaaðgerðir geta verið skaðlegar og því hefur verið áhersla á að hafa sóttvarnaaðgerðir sem mildastar hérlendis. Þannig var lífið í landinu með næsta eðlilegum hætti áður en þriðja bylgjan hófst og grípa þurfti til hertra aðgerða til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið. Það er vísbending um að leið Great Barrington-hópsins kunni að vera nánast óframkvæmanleg, ef vilji er til þess að halda innviðum heilbrigðiskerfisins starfandi.

Áfram veginn

Samkvæmt sóttvarnalögum er það sóttvarnalæknir sem ráðleggur heilbrigðisráðherra til hvaða aðgerða er rétt að grípa. Þetta eru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem mikilvægt er að vanda, enda hafa þær verið ræddar í ríkisstjórn sem staðið hefur að baki ákvörðunum þótt þær heyri stjórnskipulega undir heilbrigðisráðherra. Það er skynsamlegt í ljósi þess að vega þarf og meta margvíslega þætti þegar veiran og aðgerðir gegn henni eru annars vegar eins og rakið var hér að ofan.

Við þurfum að prófa okkur áfram og reyna að finna meðalveg, að halda smitum niðri með sem minnstri röskun á daglegt líf. Það er verkefni sem við megum ekki gefast upp á meðan við bíðum eftir bóluefni, en samvinna vísindamanna um allan heim gefur tilefni til bjartsýni um að sú stund renni upp. Nauðsynlegt er að áfram sé unnið samkvæmt bestu þekkingu og reynslu. Áfram þarf að leggja áherslu á:

  1. Einstaklingsbundnar sóttvarnir; nándartakmörk, handhreinsun, grímunotkun, sótthreinsun snertiflata og að vera heima/ sækjast eftir sýnatöku við einkenni sem samræmast COVID-19.
  2. Vernd þeirra sem tilheyra áhættuhópum.
  3. Vandaða og samræmda upplýsingamiðlun.
  4. Snörp viðbrögð þegar upp koma smit; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi, staðbundnum aðgerðum eins og þarf.

Mikilvægt er að þjóðin standi áfram saman, þá mun okkur farnast best. Í ákalli um samstöðu felst þó ekki krafa um gagnrýnislausa umræðu, þvert á móti er mikilvægt að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar um er að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum. Bannfæring gagnrýnisradda er aðeins til þess fallin að sundra þeirri dýrmætu einingu sem við þörfnumst á þessum einstæðu og erfiðu tímum. Það er okkar bjargfasta skoðun að yfirvegun og samstaða er besta sóttvörnin.