Fyrir tæpum hundrað árum uppgötvaði Sir Alexander Fleming að efni sem myglusveppir gefa frá sér gæti hamlað vexti baktería. Hann kallaði þetta efni penicillín og spáði að það gæti nýst til meðhöndlunar sýkinga. Í kringum 1942 tókst að einangra penicillín en framleiðsla og notkun þess sem sýklalyfs hófst um og eftir síðari heimsstyrjöld. Fleming hlaut, ásamt öðrum, Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1945 fyrir þessa tímamótauppgötvun. Uppgötvun sýklalyfja er ein mikilvægasta uppgötvun læknisfræðinnar og hafa þau komið í veg fyrir hundruðir milljóna dauðsfalla vegna sýkinga.

Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla bakteríusýkingar en eru gagnslaus gegn veirusýkingum svo sem kvefi og inflúensu. Margar ólíkar gerðir sýklalyfja hafa verið þróaðar eftir uppgötvun penicillíns og hafa lyfin mismikla verkun á ólíkar gerðir baktería. Sum sýklalyf teljast þröngvirk og verka aðeins á fáar tegundir sýkla, meðan önnur lyf eru breiðvirk og hafa virkni gegn mörgum tegundum. Því miður geta bakteríur þróað með sér ónæmi gegn sýklalyfjum og getur ónæmið breiðst út meðal baktería. Ónæmi sýkla getur verið ýmist gegn einni eða fleiri gerðum sýklalyfja og getur meðhöndlun sýkinga af völdum fjölónæmra sýkla reynst mjög erfið. Sýkingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería tengjast bæði alvarlegum veikindum og andlátum. Talið er að um 33.000 Evrópubúar láti lífið árlega af völdum sýklalyfjaónæmra baktería.

Á síðari árum hefur ónæmi gegn sýklalyfjum farið vaxandi í heiminum og eru því blikur á lofti hvað varðar áhrifamátt sýklalyfja í framtíðinni. Af þessum sökum hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og fleiri stofnanir lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag. Árlega er haldin alþjóðleg vika vitundarvakningar um sýklalyfjanotkun (World Antimicrobial Awareness Week) dagana 18. til 24. nóvember og sömuleiðis evrópskur vitundarvakningardagur (European Antibiotic Awareness Day) 18. nóvember. Sóttvarnalæknir vekur athygli á þessu átaki og mikilvægi þess að standa vörð um virkni sýklalyfja um langa framtíð.

Skynsamleg notkun sýklalyfja er lykilatriði til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Því er mikilvægt að læknar noti sýklalyf með markvissum hætti, en sýnt hefur verið að bæði heildarnotkun sýklalyfja og hvernig þau eru notuð hefur áhrif á sýklalyfjaónæmi. Einnig er mikilvægt að fræða almenning um hvenær sýklalyf eru við hæfi og hversu mikilvægt er að taka þau á réttan hátt. Ekki skal taka sýklalyf án ávísunar frá lækni og mikilvægt er að taka lyfin samkvæmt lyfseðli, ekki síst hvað varðar skammta og lengd meðferðar.

Eins og fram kemur í nýútkominni skýrslu um sýklalyfjanotkun og -næmi fyrir árið 2020 hefur náðst árangur við að draga úr notkun sýklalyfja hérlendis, sem er jákvæð þróun. Á milli áranna 2019 og 2020 minnkaði heildarsala sýklalyfja hjá mönnum um 16,5% en sé miðað við árið 2016 dróst salan saman um 30%. Ástæður fyrir samdrætti í notkun sýklalyfja hérlendis á árinu 2020 geta verið fjölmargar, en það ár einkenndist af umfangsmiklum samfélagslegum og einstaklingsbundnum sóttvarnaaðgerðum vegna COVID-19. Þessi viðbrögð leiddu til fækkunar annarra sýkinga í samfélaginu, sérstaklega öndunarfærasýkinga, sem aftur virtist tengjast minni notkun sýklalyfja. Þannig sýnir reynslan að sýkingavarnir geta skipt verulegu máli til þess að draga úr sýkingum og notkun sýklalyfja.

Að lokum er mikilvægt að hvetja til áframhaldandi vitundar og samstöðu um að vernda virkni sýklalyfja, svo kynslóðir framtíðarinnar njóti góðs af þessari mikilvægu uppgötvun sem gerð var fyrir tæpum hundrað árum.