Sagt er að hver þjóð fái þá valdhafa sem hún á skilið. Sé þetta rétt eigum við Íslendingar fátt gott skilið.

Niðurstöður kosninga hér á landi eru oft með slíkum ólíkindum að velta má fyrir sér hvort við Íslendingar séum einstaklega skyni skroppið fólk. Eða, eru allar talningar eins og í Norðvestur og ekki greidd atkvæði sem ráða úrslitum?

Í Bandaríkjunum hefur stundum verið gantast með að ekki skipti öllu máli að vinna kosninguna, öllu máli skipti að vinna talninguna.

Hér á Íslandi er landsbyggðin er með allt að tvöfaldan atkvæðisrétt á við okkur sem búum á höfuðborgarsvæðinu. Ákveðinn hroki felst í því að kenna slíkt fyrirkomulag við lýðræði. Talningin er unnin fyrirfram.

Reyndar sagði Karl Marx að lýðræðið væri blekking. Fólk héldi að það hefði val en staðreyndin væri hins vegar sú að valda- og fjármálaelítan leyfði fólki einungis að halda á nokkurra ára fresti að það væri að velja fulltrúa og stefnu.

Þegar horft er yfir svið íslenskra stjórnmála koma orð Marx upp í hugann. Margir kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að skattheimtu sé haldið í skefjum. Flokkurinn hefur stýrt fjármálaráðuneytinu með stuttum hléum frá stofnun. Skattar og álögur hér á landi eru með þeim hæstu í heiminum og fara síhækkandi undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Raunar er öll gjaldtaka af fólki og fyrirtækjum hömlulaus, nema af fyrirtækjunum sem flokkurinn gefur fiskinn í sjónum.

Margir kjósa Vinstri græn sem verkalýðsflokk og gegn NATO. Horfa síðan á eftir flokknum í samstarf með Sjálfstæðisflokknum og formanninum á fínar ráðstefnur með helstu leiðtogum NATO hér og hvar um heiminn.

Eftir situr almenningur í fátæktargildru krónuhagkerfisins, með dýrustu húsnæðislán í heimi, á meðan valda- og fjármálaelítan leikur sér og veit að næstu kosningar skipta engu máli. Kannski talningin en ekki kosningin. Það er nefnilega vitlaust gefið.