Undir lok síðasta árs kom svaladrykkurinn Prime fyrst á markað. Neytendur biðu í röðum eftir drykknum líkt og hungraðir hvolpar við veisluborð. Svo mikið æði myndaðist í kringum vöruna að hún seldist upp á hálftíma. Allir vildu komast á Prime-spena YouTube-stjarnanna Logan Paul og KSI. Að tefla tvíeykinu fram sem andlit drykkjarins gefur góðan gróða.
Nema fyrir neytandann.
Í veröld allsnægta er nefnilega hægt að fá of mikið af því góða. Drykkurinn sem hálf heimsbyggðin þambarinniheldur m.a. vítamín A og E í magni umfram ráðlagðan dagskammt fyrir fullvaxta einstakling – sem getur valdið eitrun. Börn þurfa talsvert minna. Rannsóknir sýna að við höfum ekki gott af verksmiðjuframleiddum vítamínum í háum skömmtum. Sérstaklega ekki A- og E-vítamínum, sem endurtekið hafa reynst ýta undir þróun ýmissa krabbameina, hjartasjúkdóma og fleiri heilsufarsvandamála. Við búum enn við blekkingu nóbelsverðlaunahafans Linus Pauling um að vítamín geti einungis gert okkur gott. Hann trúði að lykillinn að eilífri æsku væru háskammtar af C-vítamíni, þrátt fyrir að hans hægri hönd sýndi fram á að það væri ekki einungis gagnslaust við kvefi, heldur jók m.a. hættu á krabbameini. Til samanburðar eru vítamín úr náttúrulegu fæði skaðlaus.
Fæðubótariðnaðurinn er að mestu leyti eftirlitslaus. Framleiðendur þurfa hvorki að sýna fram á að vara sé örugg né gagnleg. Þeir gætu allt eins verið að selja okkur rottueitur, en það myndi líklega fækka viðskiptavinum of hratt.
Ef valið er á milli ferska íslenska kranavatnsins eða innflutts vökva með bætiefnum, sem geta valdið mér heilsutjóni, er valið auðvelt.