Undir lok síðasta árs kom svala­drykkurinn Prime fyrst á markað. Neyt­endur biðu í röðum eftir drykknum líkt og hungraðir hvolpar við veislu­borð. Svo mikið æði myndaðist í kringum vöruna að hún seldist upp á hálf­tíma. Allir vildu komast á Prime-spena YouTu­be-stjarnanna Logan Paul og KSI. Að tefla tví­eykinu fram sem and­lit drykkjarins gefur góðan gróða.

Nema fyrir neytandann.

Í ver­öld alls­nægta er nefni­lega hægt að fá of mikið af því góða. Drykkurinn sem hálf heims­byggðin þambarinni­heldur m.a. víta­mín A og E í magni um­fram ráð­lagðan dag­skammt fyrir full­vaxta ein­stak­ling – sem getur valdið eitrun. Börn þurfa tals­vert minna. Rann­sóknir sýna að við höfum ekki gott af verk­smiðju­fram­leiddum víta­mínum í háum skömmtum. Sér­stak­lega ekki A- og E-víta­mínum, sem endur­tekið hafa reynst ýta undir þróun ýmissa krabba­meina, hjarta­sjúk­dóma og fleiri heilsu­fars­vanda­mála. Við búum enn við blekkingu nóbels­verð­launa­hafans Linus Pauling um að víta­mín geti einungis gert okkur gott. Hann trúði að lykillinn að ei­lífri æsku væru há­skammtar af C-víta­míni, þrátt fyrir að hans hægri hönd sýndi fram á að það væri ekki einungis gagns­laust við kvefi, heldur jók m.a. hættu á krabba­meini. Til saman­burðar eru víta­mín úr náttúru­legu fæði skað­laus.

Fæðu­bótar­iðnaðurinn er að mestu leyti eftir­lits­laus. Fram­leið­endur þurfa hvorki að sýna fram á að vara sé örugg né gagn­leg. Þeir gætu allt eins verið að selja okkur rottu­eitur, en það myndi lík­lega fækka við­skipta­vinum of hratt.

Ef valið er á milli ferska ís­lenska krana­vatnsins eða inn­flutts vökva með bæti­efnum, sem geta valdið mér heilsu­tjóni, er valið auð­velt.