Mikið hefur verið rætt um meintan flótta íbúa úr borginni. Í Pall­borði hjá Vísi og Stöð2 benti Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, odd­viti Við­reisnar ,fyrir nokkru rétti­lega á að Reyk­víkingum hafi fjölgað um 10.000 á síðustu fjórum árum. Þá svaraði Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar­flokksins: „En megnið af því fólki er að koma að utan.“

Inn­flytj­endur teljast sem sagt ekki með.

Ég hef búið á Ís­landi í 22 ár, ég veit varla lengur hvort ég er Þjóð­verji eða Ís­lendingur. En ég á heima í Laugar­dalnum, þar gengu börnin mín í skólann, þar labba ég með hundinn minn, þar tek ég spjall við fólkið í hverfis­búðinni. Ég kom hingað með MA og við­bótar­nám sem kostaði ís­lenska skatt­borgara ekki krónu. Ég kom líka hingað með lífs- og starfs­reynslu og síðast en ekki síst með tvö af börnunum mínum sem þýska heil­brigðis­kerfið sá um að koma í heiminn alveg ó­keypis fyrir ís­lenska skatt­greið­endur. Ég hef unnið hér í 22 ár og þar að auki starfað þrot­laust sem sjálf­boða­liði og aktív­isti í þágu sam­fé­lagsins, í mál­efnum inn­flytj­enda, í for­eldra­starfi og dýra­vernd sem dæmi. En fólk eins og ég telst sem sagt ekki með.

Mikið er ég þakk­lát fyrir að hafa valið mér flokk sem er þessari full­yrðingu Einars bara alls ekki sam­mála. Ég hafði reyndar áður fengið boð um að vera neðar­lega á lista hjá öðrum flokki en bara Sam­fylkingin bauð mér tæki­færi að komast í á­hrifa­stöðu, að vera hluti af öflugu teymi sem lítur á mig sem jafningja og þátt­takanda í þessu sam­fé­lagi.

Ég er ekki til­búin til að af­skrifa fólk sem kemur hingað „að utan“ og er oft með mikla menntun og lífs­reynslu, með þrár og drauma, með ó­bilandi metnað fyrir fram­tíð barnanna sinna. Fólk sem oftast er á besta aldri sem leggur sam­kvæmt öllum tölum miklu meira til sam­fé­lagsins en það fær út­hlutað.

Nú eru samt sem áður flestir flokkar að vakna við þann veru­leika að sam­kvæmt nýjum kosninga­lögum eiga yfir 23.000 inn­flytj­endur á landinu öllu rétt á að kjósa í sveitar­stjórnar­kosningum. Kosninga­réttindi eru bundin við að hafa haft lög­heimili hér í þrjú ár en Norður­landa­búar mega kjósa strax. Flestir flokkar þýða núna eitt­hvað á ensku, sumir líka á pólsku og eigin­lega allir eru með inn­flytj­endur í skraut­sætum. Stjórnar­ráðið hefur hins vegar varla haft fyrir því að dreifa þessum upp­lýsingum; ein­hverjar upp­lýsingar á ensku eru faldar á ís­lenska vef­svæðinu en enska vef­svæðið nefnir ekki einu sinni sveitar­stjórnar­kosningar. Á­huga­leysi á mála­flokknum hjá ríkis­stjórninni er al­gert enda ekki einu sinni búið að skipa inn­flytj­enda­ráð fé­lags­mála­ráðu­neytisins sem átti að starfa milli kosninga. Og fram­kvæmda­á­ætlunin í mál­efnum inn­flytj­enda hefur legið til­búin en ó­af­greidd í skúffum ríkis­stjórnarinnar í tvö ár.

Sá flokkur sem að mínu mati sker sig úr er Sam­fylkingin. Sam­fylkingin í Reykja­vík er með fjöl­breyttan lista, einn meðal efstu fjögurra fram­bjóð­enda er inn­flytjandi, fjögur á meðal efstu 20 og sam­tals eru sex fram­bjóð­endur á öllum listanum sem hafa ekki ís­lensku að móður­máli. Sam­fylkingin er líka með mjög metnaðar­fulla stefnu í mál­efnum inn­flytj­enda, hefur stór­aukið fjár­magn sem fer til barna af er­lendum upp­runa í Reykja­vík, lækkað launa­mun sem var til staðar á grund­velli ríkis­fangs og beitt sér til dæmis fyrir þátt­töku lista­fólks af er­lendum upp­runa í menningar­lífi borgarinnar.

Nú í þessum kosningum hefur Sam­fylkingin einnig boðið upp á upp­lýsingar um kosninga­þátt­töku á tíu tungu­málum og lagt sér­staka á­herslu á að láta inn­flytj­endur vita að þeir séu með kosninga­rétt þegar við bönkum á dyr, hringjum sím­töl og göngum milli húsa. Við höfum átt sam­tal við íbúa alls staðar í borginni og því viljum við halda á­fram – sama hvaðan þeir koma. Því fjöl­breyti­leikinn auðgar sam­fé­lagið og bætir það fyrir okkur öll.

Ég er Reyk­víkingur. Ég er líka jafnaðar­maður og stolt af borginni minni og hverfinu mínu því þar er sam­fé­lag sem er opið, um­burðar­lynt og skemmti­legt. Ég telst víst með.

Höfundur er formaður innkaupa- og framkvæmdaráðs Reykjavíkur og er í 4. sæti á lista Samfylkingarinnar.