Í síðustu viku fór ég á ráðstefnu í Atlanta í Bandaríkjunum þar sem fjallað var um áföll og afleiðingar áfalla á lífsskeiðið. Þegar ég kom heim voru blómin mín orðin þyrst og visnuð. Eiginmaðurinn gleymdi að vökva! Blómin fengu bráðaaðstoð og eru að braggast. Það er eins með blómin og mannfólkið að alúð og umhyggja skiptir máli og gróska plöntunnar er háð flóknu samspili margra þátta.

Á ráðstefnunni heyrði ég sögu drengs sem missti föður sinn í skotárás þegar hann var fjögurra ára, móðir hans glímdi við vímuefnavanda og var ekki í sambandi og hann þvældist á milli fósturheimila þangað til hann var ættleiddur af konu sem veitti honum öryggi og umhyggju, þá um tíu ára gömlum. Þessi ungi maður er enn að glíma við afleiðingar flókinnar áfallastreituröskunar, meðal annars fíknivanda. Nýlega lést fósturmóðir hans og hann þarf að takast á við nýja áskorun, að hafa misst sinn trausta aðila.

Einn af lykilfyrirlesurum ráðstefnunnar var framúrskarandi vísindakona, dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sem fjallaði um yfirgripsmiklar rannsóknir sínar og annarra um áhrif áfalla og streituvaldandi atburða á heilsuna. Boðskapurinn að mínu mati var mikilvægi þess að vera meðvituð um alvarleg áhrif áfalla og erfiðrar lífsreynslu á heilsu og lífshlaup fólks. Byggja þarf samfélag sem fyrirbyggir áföll og dregur úr streitu ásamt því að veita strax gagnreynda meðferð og stuðning þegar þarf. Þannig aukum við líkur á því að einstaklingar sem verða fyrir áföllum öðlist hamingju og velsæld og geti lagt sitt af mörkum í gróskumiklu samfélagi.

Hefðu blómin mín ekki strax fengið bráðaaðstoð hefðu þau visnað og ég ekki notið þeirra áfram.