Það er nauðsynlegt að bregðast við nýlegri umfjöllunum í fréttablaðinu þar sem fjallað er um ástand selastofna við Ísland og samhengi þess við grásleppuveiðar. Í kjölfar umfjöllunarinnar sáu stjórnir Land­verndar og Hins ís­lenska náttúru­fræði­fé­lags ástæðu til að senda bréf til Guð­mundar Inga Guð­bjarts­sonar, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, og Kristjáns Þórs Júlíus­sonar, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra þar sem lýst var yfir á­hyggjum af sela­stofni Ís­lands.

Varðandi ástand selastofna, þá fjölgar landsel um 23% milli talninga og útsel fjölgaði um 50%. Þessi fjölgun á sér stað á sama tíma og árlegur meðafli í grásleppunet fyrir utan aðrar veiðar er 2.695 dýr samkvæmt útreikningi vísindamanna Hafró þar sem stuðst er við að miklu leyti ónothæf gögn úr veiðieftirliti Fiskistofu.

Sem sagt á þessu árabili 2014-2018 var uppreiknaður meðafli Hafró 13.475 selir, en samtala stofnstærðar útsels og landsels er um 15.400 dýr. Þetta þýðir að grásleppusjómenn eiga að hafa verið að veiða um 90% af stofnstærð sela á meðan stofnarnir stækka um 23-50% milli talninga. En benda má á að talið er að selastofn þoli almennt að um 10% af stofnstærð sé veidd árlega ef veiddir eru kópar eða gemlingar (Erlingur Hauksson).

Helsta ástæða þess að við erum í þessari stöðu varðandi selastofnana, er að frá 1982 fram til ársins 2018 var markvisst unnið að því að minnka stofnstærð sela með peningaverðlaunum fyrir að drepa þá (Hringormanefnd og síðar Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS). En þegar hringormanefnd var lögð niður 2008 eða 9, tók SFS við að greiða fyrir drápið með sjávarlíftæknisetrið Bíopol sem verktaka við að gera upp við veiðimenn það verðlaunafé sem SFS veitti í verkefnið

Það er alveg á hreinu að við erum í þessari stöðu núna varðandi selastofnana að stærstu leyti vegna þess markvísa dráps sem greidd voru peningaverðlaun fyrir fram til 2018.

Varðandi viðhorf vísindamanna til verndunar selastofna, þá er rétt að benda á umsögn Hafró við frumvarp sem lagt var fram á Alþingi 2012 um friðun sela, en þar benti stofnunin á afrán sela og að halda þyrfti stofnstærð innan marka og stofnunin studdi ekki frumvarpið í umsögn sinni.

Leyfilegur netafjöldi við grásleppuveiðar hefur farið niður og lengd grásleppuvertíða hefur styst mikið, auk þess sem þeim sem stunda veiðarnar hefur farið fækkandi. Þetta þýðir að færri selir veiðast sem meðafli nema að stofnstærðin hafi farið stækkandi.

Ef bregðast á við áhyggjum manna af því hvaða áhrif grásleppuveiðar hafa á selastofnana, þá þarf að fara í sögu Hringormanefndar og fá afrit af ársskýrslum hennar þar til SFS tók við að greiða verðlaunaféð fyrir drápið. Með það að markmiði að bera saman veiðitölur úr skýrslum Hafró og veiðitölur úr ársskýrslum Hringormanefndar. Eins þarf að skoða hvort það dráp sem SFS greiddi fyrir frá 2009 til 2018 hafi skilað sér til Hafró varðandi magn. Þetta þarf að gera til að sagan sé rétt skráð og að grásleppusjómenn verði ekki að ósekju fyrir barðinu á friðunarsinnum án bóta frá þeim sem komu okkur í þessa stöðu með fullri vitund yfirvalda og í samstarfi við vísindasamfélagið (Hafró).

Benda má á að fram til 2019/2020 var öllum heimilt að veiða sel á leyfis með bareflum, byssum eða netum og engrar skráningar á aflanum krafist að hálfu yfirvalda.

Höfundur er fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda og grásleppusjómaður.