Það eru mikil forréttindi að búa í vísindalega þenkjandi samfélagi.

Samfélagi sem rígheldur ekki í löngu afsannaðar kreddur um hvernig heimurinn virkar, heldur þar sem vísindalegri þekkingu er fagnað og hún er nýtt til þess að bæta líf okkar allra. Þar sem konur og hinsegin fólk njóta frelsis og jafnréttis fyrir lögum, þrátt fyrir yfirnáttúruleg orð í rosalega merkilegri bók. Samfélagi þar sem vald er ákvarðað lýðræðislega út frá sameiginlegum grunngildum án tillits til trúarskoðana, frekar en með arfgengu einræðisvaldi í nafni Guðs.

Þar sem sannleiksleitin grundvallast á rökstuðningi með vísan til rengjanlegra kenninga sem standa og falla í samkeppni við hvora aðra út frá síendurteknum prófraunum á getu þeirra til að lýsa staðreyndunum eins og þær blasa við hverju sinni.

Nú er „pólitískt rangt“ fyrir stjórnmálamenn að tala um trúarbrögð nema til að sýna aðdáun sína á vinsælustu trúarkenningunum hverju sinni. Skiljanlega, þar sem trú er mörgu fólki mjög persónuleg og því vill það væntanlega almennt hafa trúarlíf sitt í friði fyrir pólitíkusum og þeirra alræmdu leiðindum. Fólk vill eðlilega geta aðskilið þetta tvennt algjörlega, enda í rauninni f lestum augljóst hversu galið það væri að stjórna landi út frá kennisetningum trúarbragða, hvort sem þau væru kristin eða eitthvað annað.

En samt þykir alveg eðlilegt og „pólitískt rétt“ að stjórnmálamenn skjalli eitt trúfélag á Íslandi, sem er hin evangelíska lútherska kirkja, kölluð „þjóðkirkjan“. Þá þykir jafnvel fínt að kalla Íslendinga „kristna þjóð“ og fagna því jafnvel sérstaklega að hér sé meirihlutinn kristinn og að það séu sérstök forréttindi í því fólgin.

Rétt er að það séu forréttindi að búa á Íslandi. En það kemur trúarsannfæringu meirihlutans á engan hátt við, heldur er vegna þess að við búum í vísindalega þenkjandi lýðræðissamfélagi sem hefur í öllum meginatriðum vaxið upp úr því að taka forneskjulegar hefðir og trúarkreddur svo alvarlega að þær skemmi jafn mikið fyrir og þær gerðu í gamla daga.

Þegar byltingar hafa orðið í átt til lýðræðis eða aukinna mannréttinda hafa þær frekar verið beinlínis lagðar til höfuðs ráðandi trúarkennisetningum heldur en fyrir tilstilli þeirra. Í hvert einasta sinn sem vísindin hafa uppgötvað eitthvað á skjön við trúarkreddur samtímans, hefur beinlínis verið haldið aftur af vísindunum á trúarlegum grundvelli, yfirleitt af nokkurri ástríðu.

Nú er í góðu lagi að meirihluti Íslendinga sé kristinn og engum ber skylda til að haga trúarsannfæringu sinni eftir vísindalegri aðferð. Auðvitað má fólk trúa því sem því sýnist, og því auðvitað meirihluti Íslendinga líka. Við trúum öll allskonar hlutum sem við getum ekki fært sönnur á.

En höfum bara alveg á hreinu að það voru vísindin sem drógu okkur úr myrkrinu yfir í nútímann. Við ættum að vera þakklát fyrir forréttindin sem það eru að búa á þessum stað og á þessum tíma, en við skulum ekki falla fyrir rómantísku menningardaðri pólitíkusa bara vegna þess að það nærir þjóðernisegóið. Forréttindin sem við búum við í dag eru engum íslenskum hefðum að þakka og engum trúarmeirihluta, heldur auðmjúkri þekkingarleit og þrotlausri baráttu fólks sem jafnvel þoldi ofsóknir fyrir hugrekkið, og síðar forréttindin, til að efast.