Með tíma kemur reynsla og með auknum aldri erum við komin með fleiri bjargráð sem við notum til þess að líða betur. Við hreyfum okkur reglulega sem losar boðefni sem eykur vellíðan, við aukna hreyfingu verður svefninn betri og þegar við bætum reglulegu mataræði við erum við komin með ansi góða undirstöðu fyrir auknum lífsgæðum. En það eru til enn fleiri leiðir sem við getum farið og koma þær jafnvel á óvart. Það er að hætta á samfélagsmiðlum, eða allavega að minnka notkun þeirra.

Við erum félagsverur og ég held að við höfum sérstaklega fundið fyrir því á síðustu mánuðum hvað það hafði neikvæð áhrif á okkur að vera félagslega einangruð. Við þurfum á ást og umhyggju að halda og hana finnur maður ekki á samfélagsmiðlum. Við erum í raun að trufla raunveruleg samskipti okkar við vini og fjölskyldu með þvi vera stöðugt annars huga með símtækið við hönd. Góð hugmynd er að kaupa gamla góða vekjaraklukku og skilja símann eftir frammi yfir nóttina. Þá byrjar maður ekki daginn á því að lesa tölvupóst eða skoða instagram, heldur ætti maður að fara fram og fá sér morgunmat með fjölskyldunni án þess að vera með hugann við eitthvað annað. Jákvæð samskipti hafa jákvæð áhrif á líðan okkar, eitt lítið bros eða augnsamband eru dæmi um einfalda leið til þess að gera heiminn að betri stað til að vera á. Með því að vera með góð félagsleg tengsl verðum við hamingjusamari.

Annað sem við getum gert er að byrja að hugleiða, vera í núvitund. Það er ekki hollt fyrir okkur að vera stöðugt með hugann ráfandi og mun betra fyrir andlega líðan að vera með hugann við það sem maður er að gera. Þegar við ætlum að fara að sofa eigum við ekki að hugsa um vinnuna heldur má frekar einbeita sér að önduninni. Ef við lengjum útöndun þá hægjum á andardrættinum og þá hægist einnig á hjartslættinum, við verðum rólegri og auðveldara er að festa svefn. Ef við viljum hugsa um eitthvað þá er tilvalið að hugsa um það sem maður er þakkátur fyrir.

Það síðasta sem ég ætla að mæla með er að gera aðstæðurnar sem þið eruð í hagstæðar fyrir ykkur. Til dæmis ekki kaupa mikið af bjór og geyma í ísskápnum, þá er maður mun líklegri til að drekka hann, ekki kaupa mikið af sætindum og hafa í skál á borðinu, hafa frekar ávexti og hnetur til að grípa í. Ef þið ætlið í ræktina um morguninn er fínt að vera búinn að finna til ræktarfötin og vatnsbrúsann og hafa við hurðina. Allt þetta skiptir máli til þess að auka okkar eigin vellíðan.

Ég vona innilega að þetta hjálpi en ef það er eitthvað sem ég myndi byrja á þá er það að taka pásu frá samfélagsmiðlum í viku og nota tímann til þess að styrkja félagsleg samskipti. Á þessum stutta tíma munið þið finna fyrir auknum lífsgæðum og sjá hversu fínt það er að vera laus við þá. Lifum í núinu.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.