Khao Sok þjóð­garðurinn í Taí­landi er mögu­lega sá staður sem kemst næst því að vera para­dís á jörðu. Hann ein­kennist af þver­hníptum, háum kalk­steins­fjöllum sem standa upp úr kristal­tæru, smaragðs­grænu stöðu­vatni. Í fjöllunum vex iða­grænn frum­skógur, fullur af lífi.

Þrátt fyrir að vera ekki nema um þre­falt stærri en Reykja­vík er þjóð­garðurinn heim­kynni gríðar­legs fjölda dýra­tegunda, meira en 5% þeirra sem þekktar eru á heims­vísu. Stöðu­vatnið, líf­ríkið og lands­lagið hefur gríðar­legt að­dráttar­afl og fyrir vikið er Khao Sok vin­sæll ferða­manna­staður. En það er ný­lega til komið.

Það er ó­trú­legt til þess að hugsa að stöðu­vatnið, sem má segja að sé þunga­miðja þjóð­garðsins, er mann­gert. Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins. Vatnið er uppi­stöðu­lón Ratchaprapha stíflunnar sem var tekin í gagnið 1987. Fram­leiðslu­getan er 240 mega­vött af hreinni, endur­nýjan­legri orku sem slagar í upp­sett afl Búr­fells­virkjunar, 270 mega­vött. Þrátt fyrir ó­spillta náttúru hafði Khao Sok ekki það að­dráttar­afl sem það nú hefur eftir að stíflan var reist.

Lífið er orka og orka er lífið

Ó­reiða er náttúru­legt á­stand al­heimsins. Manneskjan reynir að að­laga um­hverfið að þörfum sínum og þar með koma reiðu á það. Til­vera okkar er bar­átta gegn ó­reiðunni.Skjárinn sem þú ert að horfa á núna er birtingar­mynd þessa og beinn af­rakstur þess að manns­höndin hefur beislað náttúru­öflin til orku­fram­leiðslu og búið til úr þeim eitt­hvað sem hjálpar okkur í lífs­bar­áttunni. Skjárinn er í þeim skilningi ó­náttúru­legur og það sama má segja um raf­lagnirnar í húsinu þínu, ljósa­perurnar og kaffi­vélina. Meira að segja potta­plönturnar þínar eru þar ekki af náttúru­legum or­sökum. Senni­lega vilt þú ekki án þessa vera.

Mann­leg til­vera út­heimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða há­hýsum. Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækninga­tæki. Lífs­kjör og vel­ferð okkar allra eru, enn sem komið er, í ó­rjúfan­legu sam­hengi við orkuna sem við beislum. Lífið er orka og orka er lífið.

Lífið er ekki sárs­auka­laust

Bar­áttan við ó­reiðuna fer fram með inn­gripum í náttúruna. Það fylgir því samt alltaf fórnar­kostnaður að raska ó­spilltri náttúru. Það veit senni­lega enginn ná­kvæm­lega hver sá fórnar­kostnaður var í Khao Sok og þrátt fyrir mót­vægis- og björgunar­að­gerðir er ljóst að fjöldi dýra af ó­líkum tegundum lifði fram­kvæmdina ekki af enda breytti hún vist­kerfi stórs hluta þjóð­garðsins veru­lega1.

Í þessu til­felli var á­vinningurinn talinn meiri en fórnar­kostnaðurinn.Þrátt fyrir allt þrífst fjöl­breytt líf­ríki á­fram í Khao Sok. Svæðið tók stakka­skiptum og er í dag gríðar­fal­legt og laðar að sér fjölda gesta ár­lega. Taí­lendingar búa nú einnig yfir hreinni, endur­nýjan­legri orku. Þessi orka er svo undir­staða verð­mæta­sköpunar, sem aftur er ó­rjúfan­leg for­senda vel­ferðar.

Það skal ó­sagt látið hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veru­leika í ís­lensku laga- og stofnana­um­hverfi. Senni­lega ekki. Hvað sem því líður má samt færa sann­færandi rök fyrir því að á­kvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skyn­sam­leg, þótt hún hafi ekki verið sárs­auka­laus.

Náttúran er líka mikil­væg

Dæmið um Khao Sok þjóð­garðinn á brýnt erindi við þau okkar sem hafa bæði á­huga á vel­ferð og náttúru­vernd. Það eru lík­lega flestir Ís­lendingar sem falla þar undir. Saga okkar, af­koma og lífs­gæði eru svo ná­tengd ís­lenskri náttúru að það eru harla fáir sem skilja ekki mikil­vægi hennar. Að sama skapi er sá vand­fundinn sem segist ekki vera um­hugað um vel­ferð. En það er ekki síður mikil­vægt að skilja hvað vel­ferð er og hvernig hún verður til.

Vel­ferð okkar sem þjóðar byggir ekki síst á gæfu okkar til þess að virkja náttúru­öflin til orku­fram­leiðslu. Það er jafn­vægis­list að gæta að náttúrunni en beisla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur. Þetta er vel hægt með skyn­semi að leiðar­ljósi og við eigum aldrei að raska ó­spilltri náttúru meira en þörf krefur.

Við eigum alltaf að velja þá kosti sem veita mestan á­vinning með minnstum fórnar­kostnaði.Það er líka mikil­vægt að nýta orkuna skyn­sam­lega og að sama skapi eru ein­hverjir hlutar náttúrunnar sem við viljum af góðum og gildum á­stæðum ekki undir neinum kring­um­stæðum hrófla við.

Ekki gefast upp

En það er aldrei hægt að fallast á að það megi ekki undir nokkrum kring­um­stæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar.Ef náttúran á alltaf að njóta vafans þá er engin mann­leg vel­ferð í boði og rangt að halda öðru fram. Svo öfga­kennd af­staða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífs­kjör okkar allra til langrar fram­tíðar.Þá neitum við okkur og af­kom­endum okkar um lífs­kjörin sem við þekkjum í dag. Þeim mun hratt versna, nema ó­fyrir­séðar tækni­fram­farir séu handan við hornið.

Vonandi bíður okkar bylting í orku­fram­leiðslu, til dæmis með kjarna­sam­runa. Það gæti breytt dæminu veru­lega. Við getum hins vegar ekki stefnt inn í fram­tíðina upp á von og óvon um að það gerist ein­hvern tímann á næstunni.

Eina leiðin til að full­nægja þessari stefnu til hins ítrasta er að leggjast niður, deyja og verða sjálf hluti af ó­reiðunni. Við gerum það vissu­lega öll á endanum, en eigum við ekki að reyna að vera til þar til að því kemur?

Höfundur er lögfræðingur Viðskiptaráðs.