Það er unun að fylgjast með þáttunum hans Davids Attenborough í sjónvarpinu. Þar skín alls staðar í gegn hversu mikla ást og virðingu hann ber fyrir öllu lífi á jörðinni. Og þannig þurfum við að hugsa ef lífið á að halda áfram með okkur mannfólkið innanborðs.

Allar lífverur, stórar og smáar, fallegar eða minna aðlaðandi, krúttlegar eða hættulegar, hafa sinn tilgang og spila saman í stórri hljómsveit ýmissa vistkerfa. En mannfólkið hefur tilhneigingu til að hrófla við náttúruferlunum með sérhagsmuni í huga.

Ég á tvö barnabörn í útlöndum sem voru nýlega í heimsókn ásamt foreldrum sínum. Alltaf þegar ég hugsa um framtíð þeirra fyllist ég depurð. Hvaða móður jörð munu þau erfa frá okkur? Loftslagsbreytingar með öllum skelfilegum afleiðingum kalla á mjög skjótar aðgerðir þar sem við þurfum að breyta lífsmynstrinu verulega. En margir setja markmið sín enn á meiri hagvöxt og rányrkjuna sem honum fylgir. Græðgin ræður. Eiga þessir einstaklingar ekki börn og barnabörn sem þeim þykir vænt um?

Væntumþykju og virðingu fyrir lífinu og náttúrunni þarf að rækta fyrst og fremst í heimahúsum. Það er eitthvað stórlega að í uppeldinu og viðhorfum fullorðinna þegar maður skoðar fréttir síðustu dagana. Þar voru unglingar að „skemmta sér“ við það að kasta ketti fyrir bíl þannig að hann skreið helsærður burt og drapst kvalafullum dauða. Einhverjum fannst sniðugt að „fegra“ hettumáf með því að spreyja lakki á hann og gera hann ófleygan. Mörgum er í nöp við geitunga sem eru alltaf áberandi síðsumars og vilja eitra fyrir þeim þó að þessi dýr geri mikið gagn í görðunum. Og það þykir sjálfsagt að kremja kóngulær bara vegna þess að þær þykja ekki fallegar. Sagt er stundum að börn sem drepa eða kvelja dýr séu á fyrsta stigi til að fremja fleiri glæpi.

Það að bera virðingu fyrir þessu mikla sköpunarverki sem náttúran er þurfum við að kenna börnunum okkar, fara með þeim út, skoða og fræða. Auðvitað verður kennslan í skólanum að koma þar einnig að. En náttúruvernd og virðing fyrir lífinu byrjar í heimahúsum.