Meirihluti stjórnarflokkanna er fallinn miðað við nýjustu kannanir og jafnvel þótt þeir fengju endurnýjað umboð gæti reynst þrautin þyngri að tjasla stjórninni saman eftir kosningabaráttuna. Sjálfstæðismenn eru ólíklegir til að vilja gefa forsætið áfram eftir til Katrínar og svo eru öll stóru orðin sem fallið hafa á undanförnum misserum.

Sú blokk sem er um margt líklegust til að rugla saman reytum eftir kosningar eru Vinstri græn, Framsókn, Samfylking og Píratar. Fyrir VG hafa þrír síðastnefndu flokkarnir þann kost umfram Sjálfstæðismenn að geta auðveldlega séð eftir forsætinu. Eitt er að enginn þessara flokka á sannfærandi kandídat í forsætisráðherra, en athygli vekur að formaður Samfylkingarinnar, næststærsta flokks landsins, nær ekki átta prósenta stuðningi kjósenda sem forsætisráðherra.

Hitt er að enginn þessara þriggja flokka virðist hafa sérstakan áhuga á að stýra ríkisstjórn. Þeim ætti því að vera ósárt um að bjóða Katrínu að leiða vinstristjórn, boð sem ólíklegt er að komi til hennar frá hægri.Þrátt fyrir allt ættu þessir fjórir flokkar vel að geta komið sér saman um raunhæfan stjórnarsáttmála. Þingmannafjöldinn dugar þó ekki til að mynda meirihluta miðað við síðustu kannanir, en hann er líklegur til að telja um þrjátíu þegar talið hefur verið upp úr kössunum.

Þá á blokkin tvo kosti, annan til hægri í Viðreisn sem gæti komið með sex til átta þingmenn í púkkið eða til vinstri í Gunnari Smára Egilssyni og Sósíalistum sem einnig gætu lagt fjóra til sex þingmenn í nýjan meirihluta.

Vinstri græn og Framsókn óttast Viðreisn af þekktum pólitískum ástæðum. Erfiðara gæti reynst fyrir blokkina að finna raunverulega málefnalega andstöðu við Sósíalista og þegar betur er að gáð myndi fimm flokka stjórn með Sósíalista innanborðs leysa annan vanda sem flestir vinstriflokkar glíma sameiginlega við: Gunnar Smára sjálfan.

Lausnin felst auðvitað í að koma honum strax til verka og gera hann að félagsmálaráðherra. Láta hann bretta upp ermar og koma hugsjónum allra vinstrimanna í framkvæmd. Það er allt eins líklegt að þessi lending yrði honum sjálfum einmitt mjög á móti skapi, hann langi ekkert meira en halda áfram að gelta án ábyrgðar. En upptekinn Gunnar Smári hlýtur í öllu falli að vera mun viðráðanlegri en þingmaðurinn Gunnar Smári að baka ráðherrum vandræði í óundirbúnum fyrirspurnatíma.