Innan vinstri hreyfingarinnar hefur alltaf hver höndin verið upp á móti annarri. Uppgangur og sigur þjóðernissinna í Þýska - landi var ekki hvað síst vegna ósamkomulags á vinstri vængnum. Jafnaðarmenn og kommúnistar töldu mun brýnna að berja hver á öðrum en fljúgast á við brún - stakka Hitlers. Þegar kommúnistar marséruðu um götur Reykjavíkur á fyrri hluta síðustu aldar hrópuðu þeir einum rómi: Hverjir hafa svikið? Kratarnir með spikið!

Fyrir skömmu voru 50 ár liðin síðan hópur íslenskra stúdenta hertók sendiráðið í Stokkhólmi. Sjónvarpið sýndi skemmtilega heimildarmynd um þennan atburð. Upphaflega ætluðu menn að samstilla aðgerðir í Osló, Kaup - mannahöfn og Stokkhólmi til að mótmæla skerðingu námslána og þjóðfélagsástandinu á Íslandi.

Hópurinn í Svíþjóð klauf sig frá sameiginlegum aðgerðum. Menn fóru af stað og hernámu sendiráðið án samstarfs við hina. Í myndinni sést þessi ágreiningur vel. Gamlir námsmenn frá Noregi og Danmörku höfðu ekki fyrirgefið félögunum í Svíþjóð sem „þjófstörtuðu“ fyrir hálfri öld. Stúdentar í Stokkhólmi stálu senunni og það verður aldrei fyrirgefið.

Þessar raunir og klofningur á vinstri vængnum hafa haldið áfram. Reyndar er Ísland loksins orðið sósíalistískt land þar sem stór hluti þjóðarinnar er kominn á laun hjá ríkinu. Fjölmörg gamalgróin kapítalistísk fyrirtæki hafa gefist upp fyrir aðstæðunum og beðið um ríkisaðstoð. Sovét-Ísland óskalandið er í sjónmáli en deilurnar eru hatrammar sem fyrr. Vinstrisinnaðir verkalýðsleiðtogar saka forsætisráðherra um svik við málstaðinn sama hvað hún gerir.

Mér er reyndar minnisstæðast frá þessum tíma sendiráðstökunnar fyrirsögn leiðara Moggans: Klámhögg í Svíþjóð. Svíar þýddu þetta sem pornografisk knock-out og skildu ekki neitt í neinu. Vinstri mönnum var ekki skemmt.