Oft er erfitt að koma upplýsingum um réttindi og skyldur í íslensku samfélagi til fólks af erlendum uppruna sem býr í landinu. Í þessum hópi eru konur sem búa við ofbeldi á heimili sínu en margar þeirra eru á vinnumarkaði. Oft er vinnustaðurinn eini staðurinn utan heimilis sem þær hafa leyfi til að sækja án milligöngu og/eða afskipta makans en partur af ofbeldinu getur verið að halda þeim félagslega einangruðum og illa upplýstum um réttindi sín hér á landi. Þessar konur þurfa nauðsynlega að fá réttar upplýsingar og í framhaldi aðstoð til að leita úrræða. Af framangreindu er ljóst að vinnustaðir geta verið í lykilstöðu sem vettvangur til að koma upplýsingum á framfæri til kvenna af erlendum uppruna. Því skiptir máli að vinnuveitendur og vinnufélagar séu vakandi fyrir því að samstarfskona þeirra gæti verið í þessari stöðu. Og þá er mikilvægt að bregðast við.

Konurnar þurfa að vita að þær eiga sama rétt samkvæmt íslenskum lögum og allir aðrir borgarar þessa samfélags þegar kemur að ofbeldi. Þær eiga sama rétt og maki þeirra þó að hann sé íslenskur og/eða hafi búið hér lengur en þær. Jafn foreldraréttur gildir fyrir bæði foreldri þótt að annað sé af erlendum uppruna. Þær þurfa að vita að samkvæmt íslenskum lögum á enginn að þurfa að búa við ofbeldi eða verða fyrir ofbeldi hvort heldur af hendi nákominna eða ókunnugra. Þú þarft ekki að vera beitt líkamlegu ofbeldi til að eiga rétt á aðstoð eða vilja fara frá makanum. Konur geta verið beittar andlegu, fjárhagslegu, kynferðislegu, líkamlegu ofbeldi. Þær og börnin þeirra eiga rétt á að lifa án þess. Konurnar þurfa að vita að hugsanlega er ekki besti kosturinn að þrauka í sambandinu dvalarleyfisins vegna eða barnanna. Heimilisofbeldi er skaðlegt fyrir börn sem fullorðna. Þær þurfa að vita að þær geta treyst lögreglu, barnaverndin er ekki grýla sem tekur af þeim börnin, félagsráðgjafar geta leyst úr vandamálum. Hringja skal í 112 ef ofbeldi er beitt á heimili eða annars staðar og mikilvægt að leita sér læknisaðstoðar til að fá skráða áverka. Konurnar þurfa að vita að þær geta fengið margvíslega aðstoð til að eiga ofbeldislaust líf. Þær standa ekki einar þótt þær séu aðfluttar til Íslands.

Í 37 ár hefur Kvennaathvarhvarfið verið athvarf fyrir konur og börn sem geta ekki búið á heimili sínu vegna ofbeldis. Þar er opið allan sólarhringinn, alla daga ársins. Ráðgjafar Kvennaaathvarfsins eru sérfræðingar í ofbeldi í nánum samböndum. Þar er boðið upp á viðtalsþjónustu fyrir kvenkyns þolendur ofbeldis og hægt að dvelja tímabundið. Þar fá konur upplýsingar, stuðning og ráðgjöf. Túlkaþjónusta í boði. Aðstandendur og aðrir, svo sem vinnuveitendur og vinnufélagar, sem koma að málum þolenda er einnig velkomið að hafa samband.

Hvað geta vinnuveitendur og samstarfsfólk gert? Þeir geta veitt konunum stuðning og verið til staðar, komið upplýsingum á framfæri og tengt þær við aðila sem geta aðstoðað. Vakandi vinnuveitendur og vinnufélagar geta skipt sköpum fyrir konur og börn sem búa við heimilisofbeldi. Það skiptir máli að skipta sér af.


Höfundur er starfandi framkvæmda- og fræðslustýra Kvennaathvarfsins.

Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.