Enn virðast margir ekki átta sig á því hvar fólk er statt sem er að heiman – eða vinnur að heiman. Af því getur hlotist langvinnur og óþarfur ruglingur.

Í kóvinu hefur færst í vöxt að menn sinni vinnunni sinni heima, að fullu eða að hluta. Jafnvel fólk sem hefur ekki áður sinnt vinnu sinni heima og þarf nú fyrst að koma orðum að því. Notar tölvu og síma á sama hátt og það gerði á vinnustað, jafnvel þótt það sitji í eldhúsinu heima. Sumt þetta fólk telur sig þá vinna að heiman, jafnvel þótt það sé heima og rökstyður með því að þó það sé líkamlega statt heima hjá sér sé vinnan ekki þar. Ég er hins vegar í þeim hópi sem telur það góða fólk einfaldlega vera að vinna heima – eða jafnvel að vinna heiman frá, eða sinna vinnu sinni heima við. Ekki að heiman!

Fram að þessu hefur „að heiman“ þýtt að vera ekki heima og óheppilegt að fara núna að snúa þeirri merkingu við.

Ég vann heima

Ég er kennari á eftirlaunum, kenndi í nokkra áratugi og vann þá oftast bæði í skólanum og heima hjá mér. Framan af tók ég heim með mér í skólatösku efni til að lesa, verkefni sem ég las og leiðrétti, glærur sem ég gerði heima og sýndi svo í skólanum o.fl. Með árunum minnkaði í skólatöskunni eftir því sem netið efldist og ég lærði að nota það. Heimavinnan mín færðist smám saman á netið. Um tíma kenndi ég áfanga sem var blanda af fjarkennslu og staðarnámi. Fjarkennslunni sinnti ég mest í tölvunni heima hjá mér. Stundum ræddi ég í síma við samkennara, nemendur eða foreldra – og allt var þetta hluti af vinnunni og unnið heima.

Ég lít svo á að allt þetta sem ég gerði heima hafi verið heimavinna – að ég hafi unnið heima – og það hafi engu breytt um það hvort ég notaði blað og blýant eða nettengda tölvu. En ég fór daglega að heiman og var oft langdvölum að heiman, m.a. til að sinna vinnu minni, í skólanum og víðar.

Ég gat að vissu marki valið hvort ég vann heima eða að heiman, þ.e. hvað ég vann heima og hvað ég vann í skólanum. Ég gerði fleira heima hjá mér en að sinna kennslustarfinu. Ég var í samskiptum við fjölskylduna og sinnti heimilsstörfum og áhugamálum. En mér kom aldrei í hug að ég væri að vinna að heiman meðan ég var heima. Ég held að allir Íslendingar hafi hugsað þannig allt fram á þessa öld. Athuganir á rituðu máli styðja það.

Jú, það er málfrelsi, en ...

Auðvitað má hver segja – og skrifa – hvað sem hann vill, en það er óheppilegt ef mikið notuð orð og orðatiltæki, m.a. í fjölmiðlum, hafa óljósa merkinu. Vinna hefur flust heim á kóvid-tímanum og mikilvægt að geta talað um það – og skilið hvert annað – og haldið samt áfram að skilja það sem var skrifað og sagt á síðustu öld.

Ef einhver segist vinna að heiman, þá vil ég að það sé ljóst hvort hann/hún er að vinna heima hjá sér eða annars staðar. Tungumálið á gjarna að vera fallegt – en líka rökrænt og sjálfu sér samkvæmt um algenga hluti. Svo er kostur að ungt fólk og komandi kynslóðir geti skilið það sem var skrifað allt fram á þessa öld.