Flesta daga þarf ég ekki að mæta neitt, þá fer ég sjaldnast út úr húsi. Mér finnst það gott. Ég kann vel við að dóla mér heima og sinna sem flestu símleiðis eða í gegnum tölvupóst. Svo lengi sem ég get haldið áfram að hækka þunglyndislyfjaskammtinn minn efast ég um að það komi að sök.

Flesta daga fer Hófí, kærastan mín, í vinnuna og skilur okkur Lísu, köttinn okkar, eftir heima. Lísa er inniköttur, alveg eins og ég. Við búum við götu í gamla Vesturbænum þar sem ríkir skálmöld milli kattanna. Flest kvöld verðum við vör við slagsmál úti í garði. Við vildum ekki senda köttinn okkar út í annað eins ófremdarástand, þess vegna er hún inniköttur. Ég veit ekki hvers vegna ég er það, það er eitthvert barnssár sem ég hef ekki opnað á.

Yfirleitt, þegar við kveðjumst, segi ég Hófí að ég ætli út í göngutúr með Lísu. Það er skemmtilegt að fara út að labba með kött í bandi. Lísu finnst það náttúrulega ótrúlega gaman, hún hittir þá aðra ketti undir öruggum kringumstæðum þar sem ég er tilbúinn að skerast í leikinn ef eitthvað kemur upp á. Hún prílar og veiðir flugur og horfir á fugla. Mér finnst það skemmtilegt líka, en það er aðallega vegna þess að ég ímynda mér að ég virki eins og áhugaverð manneskja í augum annarra, svona með kött í bandi.

Suma daga er það ómögulegt að komast út, við Lísa erum alveg sammála um það. Í gulum viðvörunum og svona. Þá klæðum við okkur, ég í vetrarúlpuna, Lísa í beislið, og förum fram á sameign. Við stöndum við útidyrahurðina og horfum út. Stöndum þar í smástund áður en við förum upp og breiðum yfir okkur aftur.

Síðan bítur Lísa í tærnar á mér.