Það er sjaldgæft að seðlabankastjórar í hinum vestræna heimi tali skýrt og skorinort. Ásgeir Jónsson, sem hefur stýrt Seðlabanka Íslands í að verða tvö ár, gerir það þó sem betur fer.

Í viðtali við Fréttablaðið í gær benti hann á, nú þegar vaxtahækkunarferlið er hafið samhliða efnahagsbata og meiri verðbólgu en áður var spáð, að framhaldið ætti að stórum hluta eftir að ráðast af viðbrögðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Ljóst væri að ríkissjóður, sem er rekinn með hundraða milljarða halla, þyrfti að draga sig í hlé og þá þyrfti enginn að velkjast í vafa um viðbrögð bankans ef farið verður fram með sverari kröfur um launahækkanir til bregðast við minni kaupmætti vegna verðbólgu. Fyrir heimili með 40 milljóna óverðtryggt lán er ljóst að ef stýrivextir hækka úr 1% í meira en 3% til ársloka 2022, eins og skuldabréfamarkaðir eru að spá fyrir um, myndi það þýða aukna greiðslubyrði upp á ríflega 50 þúsund á mánuði. Það munar um minna, og því mikilvægt að allir sem koma að hagstjórninni haldi vel á málum. Og vonandi munu þeir, sem ummælum seðlabankastjóra er beint til, sjá ástæðu til að leggja við hlustir þegar hann sér ástæðu til að senda frá sér slík skilaboð.

Staða þjóðarbúsins er sterk nú þegar hillir undir endalok farsóttarinnar og aðstæður eru að skapast fyrir einkageirann til að sækja fram, fjárfesta og skapa ný störf. Þar koma til árangursríkar aðgerðir stjórnvalda og peningamálayfirvalda, sem hafa haldið uppi eftirspurn og örvað hagkerfið á tímum mikils samdráttar, en gengi krónunnar er einnig tiltölulega hagstætt fyrir útflutningsatvinnuvegina og vextir eru lágir. Mikilvægt er að viðhalda þessari umgjörð á næstu misserum ef markmiðið er að sjá kröftuga viðspyrnu – og þannig ná niður því mikla atvinnuleysi sem mælist enn um 11 prósent.

Halda mætti að það væri því fagnaðarefni fyrir hagsmunasamtök launþega, sem sjá núna meira en tuttugu þúsund félagsmenn sína atvinnulausa, þegar fréttir berast af stofnun flugfélags sem skapar hundruð nýrra beinna starfa – svo ekki sé talað um öll afleiddu störfin og lægri flugfargjöld með aukinni samkeppni. Á Íslandi er verkalýðsfélögunum hins vegar stýrt af fólki sem kýs að staðsetja sig í einhvers konar „hliðarveröld“, svo notað sé orðalag seðlabankastjóra, og skeytir ekkert um slíkt – eymdin virðist frekar vera sameiginlegt markmið þess.

Dettur einhverjum í hug að þeir lífeyrissjóðir sem fjárfestu í Play, eftir mikla yfirlegu, hafi gert það vitandi að kjarasamningar félagsins brytu í bága við íslenska vinnulöggjöf?

Yfirlýsing miðstjórnar ASÍ í vikunni, þar sem Play er sakað um undirboð launa og landsmenn og fjárfestar hvattir til að sniðganga flugfélagið, er með eindæmum, jafnvel komandi úr þeirri átt. Ekki virðist standa steinn yfir steini í fullyrðingum sambandsins. Því er haldið fram að Play muni borga lægst laun á Íslandi og ekkert er gert með þá staðreynd að launakjörin eru talsvert betri en þekkjast hjá flestum öðrum evrópskum flugfélögum. Forysta ASÍ, sem gengur erinda stéttarfélags starfsmanna Icelandair, sá meira að segja ekki ástæðu til að afla sér upplýsinga frá forsvarsmönnum Play áður en farið var fram með ásakanir sem verður ekki lýst með öðrum hætti en sem skemmdarverkastarfsemi. Dettur einhverjum í hug að þeir lífeyrissjóðir sem fjárfestu í Play, eftir mikla yfirlegu, hafi gert það vitandi að kjarasamningar félagsins brytu í bága við íslenska vinnulöggjöf? Auðvitað ekki.

Hið eina rétta í stöðunni eftir þetta upphlaup ASÍ væri að biðjast afsökunar. Líkurnar á því eru samt auðvitað engar. Þar verður haldið áfram að bjóða upp á meira af því sama.