Þær höfðu verið vinkonur í fjörutíu ár og kölluðu sig „hinar sex stórbrotnu“. Árið 2018 skipulögðu konurnar, sem eru bandarískar, ferðalag til Flórída saman. En áður en til ferðarinnar kom lést ein þeirra af völdum krabbameins. Í minningu vinkonu sinnar héldu hinar fimm til sólskinsfylkisins með stóra ljósmynd af þeirri sem horfin var á braut. Á afvikinni strönd við sólarlag tóku þær hópmynd af „hinum sex stórbrotnu“.

Dóttir einnar konunnar deildi myndinni á Twitter með orðunum: „Svona vináttu vildi ég að ég ætti.“ Hún var ekki ein um þá ósk. Myndin snerti við notendum samfélagsmiðilsins og fór eins og eldur um sinu um internetið.

„Vinátta er þarflaus á sama hátt og heimspeki, listir og alheimurinn sjálfur,“ skrifaði rithöfundurinn C. S. Lewis. „Hún þjónar engum tilgangi þegar kemur að því að lifa af; hún gefur því að lifa af hins vegar gildi.“

Stuttu fyrir síðustu aldamót missti bresk-ameríski stjórnmálarýnirinn Andrew Sullivan besta vin sinn úr alnæmi. Andlát hans varð innblástur að bók um vináttu. Sulli­van segir okkur gjarnan gleyma mikilvægi vináttunnar sem sé nauðsynleg samfélagsstofnun, upplifun og það sem gerir okkur að manneskjum. Hann segir þögn ríkja um vináttuna; við ræðum hana ekki fyrr en henni lýkur, sér í lagi endi hún snögglega með andláti. „Skyndilega gerum við okkur grein fyrir að við höfum glatað einhverju svo verðmætu og djúpstæðu að við finnum okkur knúin til að bæta upp fyrir fyrra tómlæti með því að gangast við því af ákafa sem áður hefði þótt yfirgengilegur.“

Félagslegir töfrar

Flestir eiga mörg hundruð vini á Facebook. Þróunarsálfræðingurinn Robin Dunbar telur slíkan vinafjölda hins vegar efnislegan ómöguleika. Dunbar heldur því fram að einstaklingur geti ekki átt fleiri en 150 vini. Fjöldatakmörkunin, sem fengið hefur heitið Dunbar-talan, ræðst af stærð heila mannsins. En þrátt fyrir tilraunir samfélagsmiðla til að markaðsvæða vináttuna fer vinasamböndum fækkandi á Vesturlöndum.

Í nýlegu viðtali við Fréttablaðið sagði Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, töfrana sem verða til þegar tveir einstaklingar eiga stund saman vera lífsnauðsynlega manneskjunni. Þessa „félagslegu töfra“ telur hann eiga undir högg að sækja. „Félagsfræðingar hafa lengi haft áhyggjur af því að nútímavæðingin taki þessa töfra frá okkur eða umbreyti þeim. Þessi þróun birtist í því að sameiginlegum stundum fer fækkandi og stórfyrirtæki hafa tekið það yfir að skemmta fólki.“

Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur tók í sama streng í Fréttablaðinu. Sagði hann einmanaleika vaxandi vanda. Þegar fólk á Vesturlöndum var spurt fyrir 30 til 40 árum hve marga trúnaðarvini það ætti nefndi það tvo til fjóra. Samkvæmt Guðbrandi eru nú margir sem segjast ekki eiga einn einasta trúnaðarvin.

En mannkynið stendur ekki í fyrsta sinn frammi fyrir nýrri tækni sem talin er geta umbylt vináttunni. „Herra Watson, komdu hingað, ég þarfnast þín.“ Svo mælti Alexander Graham Bell hinn 10. mars árið 1876 í fyrsta símtali sögunnar. Sextíu árum síðar minntist breskt dagblað upphafs símaaldar með blaðagrein. „Ef Viktoría drottning hefði getað séð fyrir afleiðingar símans á félagslega hegðun og heimilislíf í fyrsta sinn sem hún handlék tækjabúnaðinn, hefði hún óskað Bell til hamingju? Líklega ekki. Því síminn hefur snarbylt daglegum venjum og eyðilagt gamlar samskiptahefðir.“

Í dag er alþjóðlegur dagur vináttunnar. Ný rannsókn sýnir að óvænt skilaboð frá gömlum vini færa okkur mun meiri gleði en talið var. Eftir hverju ertu að bíða?