Ég vil byrja á því að taka það skýrt fram, að eftir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lét af því fyrirkomulagi að láta viðskiptavini kaupa áfengið með því að benda á það yfir búðarborð — mig rekur ennþá minni til margra krefjandi andartaka í Lindargötuútibúinu sáluga — að þá hef ég bara verið nokkuð sáttur við þjónustu Vínbúðanna. Um langt skeið hefur manni verið treyst fyrir venjulegri innkaupakörfu eins og í öðrum búðum og notið þess að fá að valsa íbygginn um verslanirnar og velja sér rautt, hvítt og kraftbjór eins og heimsborgari jafnvel, og borgað síðan á kassa. Svona hafa jú vindar frelsisins blásið og skyldi enginn gera lítið úr því.

Enn og aftur er rætt um fyrirkomulag áfengissölu í þjóðfélaginu. Ríkiseinokunarfyrirkomulag smásöluverslunar er umdeilt. Vitaskuld ætla ég ekki að láta hjá líða að taka þátt í þessari hressilegu eilífðarumræðu svona í upphafi sumars, enda finnst mér þetta mál fyrir margra hluta sakir mjög áhugavert. Í mínum huga er þetta deiluefni ekki þess eðlis að ég missi svefn yfir því. Hins vegar hefur mér um nokkurt skeið fundist það bitastætt hvernig umræðan virðist afhjúpa ákveðnar þverstæður sem gaman er að ræða á góðum degi.

Fyrir það fyrsta: Talið er skynsamlegt að ríkið sjái um að selja vínið, vegna þess að ef einkaaðilar myndu selja það myndi aðgengið aukast og drykkja þar með aukast líka. Þetta kann að vera rétt. Þá hlýtur maður hins vegar að spyrja á móti hvort ekki væri þá skynsamlegt að ríkið reyndi eftir fremsta megni í krafti einokunar að minnka aðgengið kerfisbundið, í þágu lýðheilsu. Þessu er ekki að heilsa. Ekki verður betur séð en Vínbúðirnar keppist við að lengja opnunartíma, fjölga verslunum, auglýsa og bæta þjónustuna. Ef minna aðgengi er stefnan, þá er framkvæmdin undarleg.

Í annan stað: Í athyglisverðri mótsögn við kröfuna um minna aðgengi, heyrast stundum þau sjónarmið að ríkið sjái einfaldlega um þennan rekstur svo vel, að það sé engin þörf á því að einkavæða. Þjónustan sé frábær og úrvalið til fyrirmyndar. Ég held reyndar að einkaaðilar séu vel færir um slíkt líka, eins og dæmin sanna, en gott og vel. Hér blasir við spurningin: Ef ríkið er svona einstaklega gott í að reka verslanir, af hverju látum við þá ekki ríkið mun frekar höndla með miklu mikilvægari hluti heldur en áfengi? Ætti ekki ríkið frekar að reka fyrirmyndarverslanir með mat, föt og byggingarvörur svo dæmi séu tekin? Hvers vegna þarf verslun með vín að vera svona sérstaklega góð?

Í þriðja lagi: Lögð er á það mikil áhersla að vegna lýðheilsu verði ríkið að sjá um söluna. Þetta eru mun sterkari rök finnst mér heldur en þau á undan, en hér á ég samt erfitt með að sjá samhengi hlutanna. Eru augljós tengsl á milli ríkisreksturs og lýðheilsu? Ísland er áhugavert tilfelli. Þjóðin virðist engan veginn hafa gert upp við sig hvort sé betra, ríkisrekstur eða einkaframtak, þegar kemur að almannahag. Allt er uppí loft. Björgunarsveitirnar, sem beinlínis sjá um að bjarga fólki úr lífsháska og stuðla að öryggi fólks við erfiðar aðstæður, eru reknar sem einkaframtak frjálsra félagasamtaka. Ríkið metur það semsagt svo, að þegar kemur að björgunarstarfi í landi sem er undirselt náttúruvám sé einkaframtakinu vel treystandi, en þegar kemur að því að selja vín, alls ekki. Annað dæmi: Vínsalan er ríkisins. Áfengismeðferðin er einka.

Þetta leiðir hugann að því fjórða. Sagt er að áfengi sé svo varhugaverð vara — sem ég get vissulega staðfest og á margar reynslusögur um — að ríkisvaldið verði að stjórna sölunni. En þá má spyrja: Er ekki tóbak líka ákaflega skaðlegt? Geta lyf ekki verið varhugaverð? Skotvopn? Eiturefni? Einkaaðilum er treyst til að sýsla með þessar vörur. Af hverju ekki vín?

Það eru svo miklar þversagnir í þessari umræðu að manni grunar stundum að það sé ölvun í gangi. Ég held, eftir að hafa spáð í þetta bæði edrú og ekki edrú, í ótal kringumstæðum og samræðum í gegnum tíðina — oftar en nokkur maður getur kært sig um — eins og vel flestir aðrir Íslendingar — því við erum jú öll dæmd til að deila um þetta mál að eilífu — að tvö meginatriði þurfi að hafa í huga til þess að taka kannski einhvern tímann ákvörðun: 1) Það skiptir ekki máli hver selur vínið, heldur hvernig. Lagaumgjörðin, regluverkið í kringum söluna skiptir höfuðmáli. Einkaaðilar mega selja tóbak gegn mjög ríkum skilyrðum. Sama ætti að gilda um vín. Ríkið setur skilyrðin. Einkaaðilar framkvæma. 2) Það getur verið að vaxandi frelsi sé gott, því mögulega eykur það ábyrgð.