Mesta fjörið er að finna vinstra megin í pólitíkinni í ár. Þaðan berast skrautlegar yfirlýsingar sem hafa ekki heyrst lengi í íslenskri þjóðmálaumræðu, svo róttækar sem þær eru í eðli sínu.

Blessunarlega hefur þetta hrist upp í íslenskum stjórnmálum. Og þau máttu alveg við því að senuþjófarnir færu á stjá og kæmu þeim sem fyrir voru í uppnám.

Síðast gerðist þetta með tilkomu Pírata. Þeir komu eins og óboðnir gestir inn í samkvæmi óaðfinnanlega klæddrar stjórnmálastéttar og hneyksluðu þá sem þar voru fyrir með orðavali og atgervi, hentu pólitíkinni svo að segja í gólfið eftir að hún hafði hangið uppi á vegg um árabil, vandlega römmuð inn með skrautlistum.

Og einmitt núna þegar landsmenn hafa vanist þessu nýja yfirbragði Alþingis reisa Sósíalistar fána sinn við hún – og bjóða fram róttæklinga af öllu tagi, ekki síst roskið fólk, rétt eins og Flokkur fólksins á nálægum slóðum stjórnmálanna sem ætlar að bylta efnahag aldraðra.

Tilsýndar standa svo Vinstri grænir og Samfylkingin og finnst sem að þeim sé vegið úr villta vinstrinu og láta þennan hamagang fara svolítið í taugarnar á sér, enda svo til heimaskítsmát.

Af sjálfu leiðir að samkeppnin hefur aldrei verið meiri á vinstri hlið íslenskra stjórnmála. Og vinstrið er að verða meira vinstri þó ekki væri fyrir annað en að miðjusæknasti vinstriflokkurinn, Samfylkingin, hefur flutt lögheimili sitt í sömu götu og Vinstri grænir – og er líka orðinn svo vinstri grænn að hann hefur ekki bara ímugust á íhaldinu heldur útilokar það.

Í samanburði við villta vinstrið er værðarlegt um að litast hægra megin á pólitíska sviðinu. Þaðan er annars vegar boðið upp á hófsaman og heimaríkan hægriflokk sem er í rauninni varfærnislega kratískur í eðli sínu og hins vegar þjóðernissinnaðan og kristilegan íhaldsflokk sem líður best í eigin landi. Miðjumegin við þessa flokka er svo frjálslynda Viðreisn sem lætur blika á hnífinn gagnvart kerfislægu hagsmunaapparati, en er að öðru leyti með hugann við útlönd.

Hægrið vantar það sem vinstrið hefur nú um stundir. Hasar. Í rauninni hefur aldrei verið starfræktur harðlínuflokkur á þeim enda íslenskra stjórnmála, flokkur sem vill raunverulega skera ríkisbáknið niður og einkavæða allt heila gillimojið með tilþrifum. Harða hægrið er ekki til á Íslandi. Það þrífst ekki á Íslandi. Og hasarinn er fyrir vikið vinstra megin