Lífskjarasamningurinn var málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Þegar skrifað var undir vorið 2019, skömmu eftir fall WOW air og fyrirsjáanlegur samdráttur var í kortunum í ferðaþjónustu, var fallist á heldur meiri launahækkanir en innistæða var fyrir gegn löngum kjarasamningi og væntingum um að vextir myndu lækka ef stöðugleiki yrði tryggður á vinnumarkaði. Allar efnahagslegar forsendur samningsins, sem grundvölluðust á áframhaldandi hagvexti og aukinni verðmætasköpun, hafa nú brostið. Birtingarmynd þessarar mestu kreppu í hundrað ár er meðal annars tíu prósenta atvinnuleysi, 300 milljarða samdráttur í landsframleiðslu og hrun í útflutningstekjum þjóðarbúsins. Meirihluti aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins mun meta það sem svo að þau hafi því litlu að tapa að slíta samningnum.

Efnahagsstefna verkalýðshreyfingarinnar er á villigötum og grundvallast á rangri greiningu á vandanum. Við glímum ekki við hefðbundna eftirspurnarkreppu heldur hefur orðið framboðsskellur vegna sóttvarnaaðgerðanna og verðmætasköpun í hagkerfinu hefur af þeim sökum dregist stórkostlega saman. Með lækkun vaxta og auknum ríkisútgjöldum hefur höggið verið mildað, með því að reyna að halda uppi eftirspurn og lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, en stærsta áskorunin – ætli okkur að takast að búa til störf og minnka atvinnuleysi – er að draga úr óvissu og fá atvinnulífið til að fjárfesta á ný. Það mun ekki gerast með því að knýja fram launahækkanir á þessari stundu með fjármunum sem fyrirtækin eiga ekki til með þeim fyrirsjáanlegu afleiðingum að atvinnuleysi mun aukast enn og verðbólgan hækka. Þeim efnahagslögmálum hefur ekki verið kippt úr sambandi.

Verkalýðshreyfingin hefur verið yfirtekin af fólki sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök.

Skilningsleysi verkalýðshreyfingarinnar á stöðunni er átakanlegt. Hún hefur verið yfirtekin af fólki sem er heltekið af úreltri og hættulegri hugmyndafræði um viðvarandi stéttaátök. Sé það gagnrýnt hefur það fátt annað fram að færa en skítkast og gífuryrði í garð fólks sem er því ósammála um hvaða leiðir sé skynsamlegt að fara til að bæta lífskjör í landinu. Seðlabankastjóri, sem hefur staðið sig vel á erfiðum tímum, er þannig uppnefndur „einn af hrun-prinsunum“ fyrir það eitt að hafa starfað í greiningardeild í banka og varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem hefur stýrt fjölskyldufyrirtæki farsællega til margra ára og farið fyrir Samtökum iðnaðarins, er sagt að snúa sér að því sem hún geri best, að framleiða ís – þegar hún leyfir sér að hafa skoðanir á málum er varða hagsmuni sjóðfélaga. Framganga þessara formanna stærstu stéttarfélaga landsins – VR og Eflingar – er þeim til skammar. Þeim stendur hins vegar alveg örugglega á sama.

Í fyrri efnahagskreppum hafa aðilar vinnumarkaðarins, ásamt stjórnvöldum, í sameiningu leitað leiða til að lágmarka skaðann. Nú horfir öðruvísi við. Frá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar koma engar tillögur að lausnum, aðeins hótanir ef ekki verður fallist á launahækkanir í dýpstu niðursveiflu lýðveldissögunnar. Í stað þess að horfast í augu við raunveruleikann, sem lýsir sér meðal annars í því að um þrjátíu þúsund manns verða án atvinnu þegar líður á veturinn, hafa þeir kosið að fara einföldu leiðina og taka á sig enga ábyrgð. Verði þeim að því.