Iðulega þegar bent er á að einhver kerfi á Íslandi séu gölluð, þá er svar ríkisstjórnarinnar að ekki sé vert að gera neitt í þeim núna því að heildarendurskoðun þurfi á þessum málaflokki í stað þess að bæta fleiri plástrum á núverandi kerfi.

Að vissu leyti hefur ríkisstjórnin rétt fyrir sér. Núverandi kerfi eru svo uppfull af plástrum að það er næsta vonlaust fyrir neinn að skilja hvernig þau virka.

Gott dæmi um þetta er það stuðningsnet sem búið hefur verið til fyrir eldra fólk og öryrkja. Vel meintar lagfæringar skila ekki þeim niðurstöðum sem ætlast er til og duga oft aðeins fyrir lítinn hóp þessara einstaklinga.

En það þýðir heldur ekki að nota heildarendurskoðun sem afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Það er ekki hægt að láta fólk bíða ævina á enda eftir því að slík heildarendurskoðun fari fram.

Það skýrir nauðsyn aðgerða eins og skerðingalausu eingreiðsluna til öryrkja fyrir jól sem bæði stjórn og stjórnarandstaða sameinuðust um, í óþökk flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.

En af hverju tekur það svona langan tíma að ná fram heildarendurskoðunum á mikilvægum málaflokkum? Jú, ástæðan er frekar einföld og liggur í þeim vinnubrögðum sem nú tíðkast hjá meirihlutanum. Starfsfólk ráðuneyta er sett í að vinna ný frumvörp, oft án mikillar þátttöku þeirra sem lögin hafa áhrif á. Frumvörp sem síðan er reynt að keyra í gegnum þingið án mikillar umræðu.

Þetta leiðir til þess að engin samstaða næst um viðkomandi heildarendurskoðun og hún endar ofan í skúffu þar til á næsta þingi, þar sem hún er lögð fram lítið breytt og mætir því sömu endalokum ár eftir ár, á meðan gamla kerfinu blæðir.

Leiðin út úr þessari vitleysu er einföld, en krefst fórna. Grundvöllurinn felst í viljanum til þess að hlusta á og taka tillit til skoðana annarra og að virkja fleiri í vinnunni við að skapa ný kerfi. Sannleikurinn er sá að um leið og viljinn til þess að vinna saman að hlutunum fær að ráða þá koma í ljós lausnir sem öll geta sætt sig við.

En til þess að þetta geti orðið þurfa þau sem fara með völdin að vera tilbúin að fórna hluta af þeirri valdastöðu sem þau búa við. Þau vita það að þau geta þrýst sínum hugmyndum í gegn í krafti þess meirihluta sem þau hafa. En þau sem hafa kynnt sér hugmyndir og aðferðafræði sannra leiðtoga eins og Mandela og Gandhi vita að þessar fórnir eru þess virði til þess að ná fram mikilvægum breytingum.

Á þessu kjörtímabili hafa þingmenn allra flokka tækifæri til þess að vinna saman, þvert á flokkslínur, að því að endurskoða þau flóknu kerfi sem eru grunnurinn að því velsældarsamfélagi sem við öll viljum búa við.

Við þingmenn verðum dæmd af því í næstu kosningum hversu vel við höfum unnið saman að því að bæta samfélagið. Við verðum dæmd af því hvort við stóðum saman að því að breyta því sem breyta þarf.

Sýnum þjóðinni að við erum tilbúin til þess að leggja okkar af mörkum til þess að vinna sem ein heild.