Fróðlegt var í vikunni að lesa viðtal Lionels Barber, ritstjóra breska dagblaðsins Financial Times, við Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Barber lýsti hörkulegu vetrarveðri þennan dag í Berlín og taldi það samsvara hinum pólitísku veðrum. Hvert sem Angela Merkel horfir hlaðast upp óveðursský alþjóðastjórnmála og hart er sótt að þeim gildum sem hún hefur djarfast varið.

Barber sagði að sem fyrr hefði Merkel haldið ró sinni og varfærni, vegið hvert orð án tilfinningasemi. Hún væri staðráðin í að varðveita og styðja stefnu fjölþjóðlegrar samvinnu þjóða, sem á undir högg að sækja á tímum Trumps, Brexit og Pútíns.

Merkel lýsti yfir áhyggjum af því að lærdómar síðari heimsstyrjaldar sem skutu rótum alþjóðastofnana á borð við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar væru að fjarlægjast. En þrátt fyrir réttmæta gagnrýni á þessar fjölþjóðlegu stofnanir væri hún enn sannfærð um að leiðin fram á veg sé marghliða ríkjasamstarf.

„Séum við hreinskilin, þá voru Bretar ósáttir við margar ráðstafanir um aukna Evrópusamvinnu, hvort sem það var samstarf varðandi innra öryggi, evru eða Schengen. Bretland var ekki þátttakandi á mörgum þeim sviðum sem fólu í sér framþróun sambandsins,“ sagði Merkel um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hún bætti þó við að dyr sambandsins myndu ávallt standa Bretum opnar. Hún taldi að Evrópa yrði að bregðast við með öflugri áherslu á rannsóknir og menntun og nýta ávinninginn af innri markaði álfunnar betur. Samkeppni geti skilað miklum afköstum.

Merkel segir að Evrópa verði að bregðast við með öflugri áherslu á rannsóknir og menntun og nýta ávinninginn af innri markaði álfunnar betur. Samkeppni geti skilað miklum afköstum.

Flestum er ljóst að lengi hafa straumar ekki legið saman milli Merkel og Trumps. Aðspurð hvort það velti á persónunum eða sé vegna áherslubreytinga, sagðist hún telja að það lægi meira í stjórnmálaþróun. Í áraraðir hefði áhersla Bandaríkjanna á Evrópu færst yfir til Asíu.

Uppgangur Kína varð henni að umtalsefni. Ekki megi loka augunum fyrir varhugaverðum samkeppnisháttum og mannréttindabrotum Kínverja. Hún sagði þá þó hafa áhugaverðar hugmyndir og hafa þróast hratt og ris þeirra byggst að miklu leyti á vinnusemi, sköpunargáfu og tæknikunnáttu.

Þegar kemur að samkeppni við Kína horfi hún á Evrópusambandið sem líftryggingu. „Þýskaland er allt of lítið til að hafa landfræðipólitísk áhrif á eigin spýtur. Þess vegna þurfum við að nýta okkur allan ávinning af innri markaði.“

Kanslarinn sagði að Evrópubúar þyrftu að axla meiri ábyrgð og vera raunsærri þegar kemur að varnarmálum. „Við munum ekki vera sjálfstæð í hernaðarlegu tilliti í fyrirsjáanlegri framtíð,“ sagði hún og minnti á að Atlantshafsbandalagið væri enn afar mikilvægt fyrir sameiginlegar varnarskuldbindingar. Engu að síður verði Evrópa að þróa eigin hernaðargetu vegna svæða þar sem NATO hafi minni afskipti. Evrópa verði að geta brugðist við ef nauðsyn krefur. Dæmi þar um séu átök í Afríku og hryðjuverkastarfsemi.

Skilaboð Merkel eru einföld og skýr: Öflugt marghliða ríkjasamstarf, hvort sem er á sviði efnahags- eða varnarmála, mun skila Evrópuríkjunum fram á veg.