Þriðju kynslóðar farsímakerfin, 3G, voru fyrst opnuð í nokkrum löndum upp úr síðustu aldamótum. Símtækin sem í upphafi gátu nýtt þessa nýju tækni voru fá og óþjál. Viðskiptavinirnir létu sér fátt um finnast og jafnvel þeir nýjungagjörnustu fundu rýra nýtingarmöguleika.

Þegar fyrsta 3G þjónustan á Íslandi fór í loftið í september 2007 voru nýkomnir á markað farsímar sem byrjuðu að bjóða upp á þægilegt viðmót til að nýta gagnagetuna. Einn sá framsýnasti var Steve Jobs sem kynnti fyrsta iPhone símann á sýningu í janúar 2007. Þar reyndist kominn fyrsti snjallsími heims sem almenningur tengdi vel við.

Vítamín félagslega hagkerfisins

Nú er svo komið að við getum fæst hugsað okkur hefðbundinn dag án þessa sítengda galdratækis. Tónlist, landakort, ljósmyndir, sjónvarp, staðsetningar, myndskeið, hlaðvörp, skilaboð, nám, heilsa, hreyfing, vinna, grín, eftirlit, símtöl, viðskipti, fréttir, leitarvélar, fjármál, póstur, veður, orðabækur, leikir, félagsmiðlar. Eitt tæki tekur alla þessa þætti og fleiri með okkur í gegnum ferðalag dagsins. Hver snjallsími hefur langtum meiri reiknigetu en þær tölvur sem komu fólki á tunglið og lifandi til baka á síðustu öld. Við bætist að símtækin geta á örskotsstund virkjað nær óendanlega reikni- og leitarvirkni í gagnaverum einhvers staðar úti í heimi, jafnvel til að hlýða talaðri spurningu okkar um mataruppskrift á meðan við rýnum í ísskápinn. Öflugri alþjónustu hefur mannkyn ekki kynnst.

Yngra fólk þekkir ekki tilveruna án þess að geta tengst netinu nánast hvar sem er, hvenær sem er. Það var 3G sem breytti nettengdum heimi okkar og setti hann í lófann á okkur. 4G, WiFi, Bluetooth og fleiri þráðlausar lausnir opnuðu þennan heima á enn víðari og fjölbreyttari vegu. Á grunni tækni sem nú þykir sjálfsögð risu á örfáum árum iðngreinar, viðskiptamódel og alþjóðleg viðskiptaveldi sem áður voru óhugsandi.

Hvað næst?

Þá er spurningin: Hvernig munu næst útgáfur fjarskiptatækni, svo sem 5G og hlutanetið (IoT), hjálpa okkur í leik og starfi? Óræður sjóndeildarhringur blasir við okkur sem fyrr. Við getum ekki séð fyrir nema lítinn hluta þeirra möguleika sem snjallir frumkvöðlar munu nýta sér með nýju og endurbættu grunnlagi.

Víst er að ekki verður aðeins hugað að þáttum sem gera líf okkar auðveldara, skemmtilegra og innihaldsríkara, heldur einnig að draga úr sóun og tryggja sem besta nýtingu verðmæta. Við vitum nógu mikið til þess að átta okkur á því að nýr tæknigrunnur skapar ný tækifæri fyrir þjóðarhag, viðskipti og lífsgæði.

Fjarstýrðir aðgerðarþjarkar

Nýjungar eru ekki án áhættu. Huga þarf að persónuvernd, heilsu fólks vegna nýrrar tíðninotkunar og félagslegum og sálrænum ógnum, sem svo öflug tækni getur skapað ef hún er ofnotuð eða misnotuð. En möguleikarnir á að bæta líf fólks eru líka endalausir.

Umferðaröryggi má bæta og það löngu áður en sjálfkeyrandi bílar koma til sögunnar. Einn möguleikinn er til dæmis sá að bílar munu geta „talað“ saman í rauntíma og látið bílstjóra sína vita af hálku sem er fram undan á veginum. Heilbrigðisþjónusta mun breytast með langtum skemmri svörunartíma. Nettengdir læknar munu geta fjarstýrt þjörkum við fjölmargar algengar aðgerðir. Þannig má auka til muna aðgengi að hátækni heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum eða úti á sjó, auk þess að spara fé og sjúklingum og læknum ferðalög, tafir og óþægindi.

Staðbundin 5G net á iðnaðarsvæðum ásamt tengdum skynjurum munu auka öryggi starfsfólks, minnka afföll við framleiðslu og þannig gera reksturinn arðbærari svo að meira verði til skiptanna. Snjöll mælitækni í húsum mun geta bætt nýtingu á heitu vatni og rafmagni. Þetta eru bara örfá dæmi um það sem talið er að ný tækni muni leiða af sér.

Samstillt átak

Ef vel tekst til mun ný tækni brúa fjarskiptagjána sem í dag skilur að þéttbýlisstaði í dreifbýli og suðvesturhornið. Uppbygging alls landsins er risavaxið verkefni sem ekkert eitt fjarskiptafyrirtæki mun ráða við. Leiðin að þessu marki er samnýting grunninnviða, regluverk sem horfir fram á við en ekki í baksýnisspegilinn og umhverfi sem tryggir sem skynsamlegasta nýtingu þeirra fjármuna sem fyrirtækin hafa yfir að ráða til fjárfestinga. Mikið liggur við að ríki, sveitarfélög og fjarskiptafyrirtæki vinni saman að þessu mikilvæga verkefni.