Við viljum samfélag án kynbundins ofbeldis og kynferðisbrota. Þess vegna hleypum við nú af stokkunum, Ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan, átaki sem er ætlað að fæla framtíðarbrotamenn frá því að beita ofbeldi.
Í herferð, sem verður beint að karlmönnum á aldrinum 18-35 ára, er athygli vakin á óeðlilegum viðhorfum í samskiptum karla við konur. Með þessu viljum við taka skref í átt að samfélagi án kynferðisbrota.
Langt er enn í það markmið. Rannsóknir sýna að eitt helsta einkenni kynferðisbrota er hversu lágt hlutfall þolenda kærir til lögreglu. Í löggæsluáætlun fyrir 2019-2023 er markmið að auka hlutfall brota sem eru tilkynnt og að brotunum sjálfum fækki.
Tilkynntum kynferðisbrotum til lögreglu hefur fjölgað undanfarin fimm ár. Sú þróun heldur áfram en fjöldi tilkynntra kynferðisbrota til lögreglu eru um 560 það sem af er þessu ári en voru að meðaltali um 480 á sama tímabili síðustu 3 ár á undan.
Lögreglu hafa borist 184 tilkynningar vegna nauðgana það sem af er ári en þær voru 143 á sama tímabili í fyrra. Að meðaltali var því tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði á fyrstu tíu mánuðum þessa árs sem er sami fjöldi og síðustu ár, að árinu í fyrra undanskildu þegar Covid hafði í för með sér miklar samkomutakmarkanir.
Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 119 á fyrstu tíu mánuðum þessa árs, eða 25% fleiri en síðustu þrjú ár á undan. Aldrei hafa fleiri tilkynningar vegna „barnaníðs“, þ.e.a.s. haldlagning mynda og myndskeiða, borist fyrstu 10 mánuði ársins, en tilkynningar um slíkt eru 34 það sem af er ári.
Við verðum að gera betur. Hjálpumst að við að skapa samfélag án kynbundins ofbeldis og kynferðisbrota.