Nú þegar sléttir níu mánuðir eru liðnir frá upphafi stríðsins í Úkraínu sjáum við sífellt fleiri frásagnir af meintum stríðsglæpum, þar á meðal af kynferðisofbeldi gagnvart konum og stúlkum. Sagan endurtekur sig, því miður. Nauðganir og annað kynferðisofbeldi af völdum hermanna meðan á vopnuðum átökum stendur hafa ætíð fylgt stríðsátökum.

Andrúmsloftið er því þungbúið á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi þetta árið. Sá gríðarmikli stuðningur sem mörg aðildarríki Evrópuráðsins hafa boðið þeim milljónum manna sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sín vekur okkur hins vegar von. Ríkulegur stuðningur frá ríkisstjórnum, sveitarstjórnum og almennum borgurum er hughreystandi.

Konur, stúlkur og börn eru 90% þeirra sjö milljóna sem hafa þegar flúið stríðsátökin. Þetta er hópur sem er afar berskjaldaður fyrir bæði kynferðisofbeldi og mansali. Þolendur slíkra glæpa þurfa nú á stóraukinni aðstoð okkar að halda en við þurfum einnig að vera til staðar til framtíðar.

Þolendur standa frammi fyrir víðtækum afleiðingum ofbeldis, allt frá óæskilegri þungun og kynsjúkdómum til andlegra áfalla og líkamlegra áverka. Þörf er á samstilltum aðgerðum ólíkra stofnana þannig að heilbrigðisstarfsfólk hafi þekkingu og getu til að sinna þolendum kynferðisofbeldis, framkvæma læknisskoðanir og réttarfræðilegar skoðanir, sem og að veita tafarlausa áfallahjálp auk sálfræðilegrar aðstoðar til lengri tíma. Flóttafólk sem hefur orðið fyrir kynbundnu ofbeldi þarf jafnframt að hafa aðgang að stuðningi og ráðgjöf á tungumáli sem það skilur og á auðvelt með að nota.

Sérhæfð aðstoð er nauðsynleg til að takast á við varanleg áföll til að draga úr upplifun þolenda á skömm og áfallastreituröskun sem getur tekið sig upp síðar. Þetta hafa fyrri átök kennt okkur. Reyndar hefur kynferðisofbeldi á átakasvæðum í för með sér bæði afleiðingar til skamms tíma og langtímaáhrif hjá þolendum, eins og má lesa um í skýrslum sem komu út í þessum mánuði frá GREVIO, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, sem er einnig þekktur sem Istanbúl-samningurinn.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna standa konur, stúlkur og börn á flótta frammi fyrir hættu á mansali. Þetta hefur verið staðfest af félagasamtökum sem vinna beint með flóttafólki á átakasvæðum.

Sérstakur fulltrúi Evrópuráðsins um fólksflutninga og flóttafólk hefur heimsótt þau lönd sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af hinu gríðarmikla streymi fólks frá Úkraínu. Í skýrslum sínum hefur fulltrúinn lagt áherslu á nauðsyn þess að finna fólk í viðkvæmri stöðu, einkum konur og börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Fulltrúinn hefur einnig hvatt til aukins stuðnings við flóttafólk sem orðið hefur fyrir kynferðisofbeldi, einkum með því að koma á fót sérhæfðum miðstöðvum með sérfræðingum sem veita læknisþjónustu og áfallahjálp. Þá er fulltrúinn að fylgja skýrslunum eftir með því að skipuleggja aðgerðir til að styðja aðildarríkin í því að takast á við þessar margvíslegu áskoranir.

Loks þarf að refsa gerendunum. Í skýrslu skoðanahóps háttsettra embættismanna á vegum Evrópuráðsins sem út kom í síðasta mánuði eru tilmæli þess efnis að fylgjast ætti með vernd mannréttinda á átakasvæðum með því að koma á fót skrifstofu sem tryggi að stofnunin hafi ávallt nýjustu upplýsingar um mannréttindamál. Þetta getur meðal annars náð til upplýsinga um tilkynningar um kynferðisofbeldi gagnvart konum og stúlkum í innrásarstríði Rússlands í Úkraínu. Í þessu samhengi vil ég hrósa þeirri ákvörðun úkraínskra yfirvalda að fullgilda Istanbúl-samninginn þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður. Það sýnir fram á staðfestu þeirra, ekki bara gagnvart því að tryggja vernd og stuðning fyrir þolendur, heldur einnig til að tryggja nauðsynlega ábyrgðarskyldu gerenda.

Dæmin sýna að kynferðisofbeldi á átakasvæðum er hnattræn áskorun, líkt og fram kemur í nýjum skýrslum sem sýna að kvenkyns mótmælendum í Íran hefur verið hótað með nauðgun. Istanbúl-samningur Evrópuráðsins er opinn öllum löndum og í honum er viðurkennt að þetta ofbeldi er brot gegn grundvallarmannréttindum jafnframt því að vera ein af birtingarmyndum mismununar gagnvart konum. Með því að bjóða upp á leiðbeiningar um vernd þolenda og refsingu gerenda, þar með talið á stríðstímum, er Istanbúl-samningurinn orðinn mikilvægari en nokkru sinni fyrr og ég hvet lönd um heim allan til að gerast aðilar að honum.