Ísland er land mikilla þversagna.

Efnahagsspár benda til mikils hagvaxtar og aldrei hefur landinn eytt eins miklu erlendis og nú.

Ferðamennirnir eru komnir á ný og hótel á Íslandi aftur orðin of dýr fyrir mörlandann.

Mikil þensla er á atvinnumarkaði og á næstu árum vantar 9.000 sérfræðinga, 8.000 manns í ferðaþjónustuna og 2.000 iðnaðarmenn.

Landið er gjöfult og gott en samt virðist okkur ekki takast að byggja upp samfélag sem tekur utan um þá sem minna mega sín.

Þjóðartekjunum er mjög misskipt og er það líkast til ástæðan fyrir því að á sama tíma og þúsundir Íslendinga búa við sáran skort hagnast ein atvinnugrein um 100 milljarða á einu ári vegna einkaaðgangs að sameiginlegri þjóðarauðlind.

Í þessu ríka landi er ekki hægt að tryggja öllum íbúum aðgengi að boðlegri heilbrigðisþjónustu. Það vantar fjármagn. Ekki vantaði hins vegar fjármagn þegar splæsa þurfti tveimur og hálfum milljarði í að búa til nýtt ráðuneyti til að liðka fyrir endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfs síðastliðið haust.

Ráðafólki þessa lands finnst það í góðu lagi að hér sé alvarlegur og viðvarandi húsnæðisskortur, fasteignaverð rjúki upp úr rjáfrinu og greiðslubyrði íslenskra íbúðakaupenda sé tvöföld og jafnvel þreföld það sem tíðkast í okkar nágrannalöndum. Þessu ætlar ríkisstjórnin ekki að breyta.

Seðlabankinn gerir illt verra – honum má líkja við Hróa hött með öfugum formerkjum. Hann flytur fjármagn frá þeim fátæku til hinna ríku. Vaxtahækkanir hans færa milljarða frá íbúðakaupendum til fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda. Ungar fjölskyldur eru settar á vonarvöl. Verst er að bankinn hefur önnur ráð en er fastur í 19. aldar peningastjórn.

Ríkisstjórnin er kyrrstöðustjórn. Á það hefur verið bent að ríkisstjórnin hefur sett bráðnauðsynleg orkuskipti í biðflokk.

Ríkisstjórnin er furðuleg blanda afturhalds- og vinstristjórnar – samsuða ósamstæðra flokka, sammála um það eitt að verja sterka sérhagsmuni og setja grundvallarhagsmuni í biðflokk.

Ríkisstjórnin setur Ísland í biðflokk. Höfum við efni á því?