Fyrstu niður­stöður úr Lands­könnun á matar­æði full­orðinna benda til að um 40% þátt­tak­enda taka ekki D-víta­mín sem fæðu­bót. Rann­sóknir hjá börnum á grunn­skóla­aldri og ung­lingum á Ís­landi benda í sömu átt.

D-víta­mín er fitu­leysið víta­mín sem myndast í húðinni fyrir til­stilli út­fjólu­blárra geisla sólar. Það er að­eins að finna í fáum fæðu­tegundum; í feitum fiski t.d. laxi, bleikju, lúðu, síld, sardínum og makríl, eggja­rauðu og víta­mín­bættum vörum. Það er nær ó­mögu­legt að full­nægja þörfinni með fæðunni einni saman og því er ráð­lagt að taka inn D-víta­mín sem fæðu­bót, annað­hvort lýsi eða D-víta­mín­töflur, sér­stak­lega yfir vetrar­mánuðina en einnig á sumrin ef notuð er sólar­vörn.

D-víta­mín hefur mörg mikil­væg hlut­verk í líkamanum, meðal annars að stuðla að upp­töku á kalki úr fæðunni og upp­byggingu beina. Magnið af D-víta­míni sem er ráð­lagt er mis­munandi eftir aldri:

  • Fyrir ung­börn og börn á aldrinum eins árs til níu ára er ráð­lagður skammtur 10 mí­krógrömm (µg) á dag sem svara til 400 al­þjóð­legra eininga (AE)
  • 10 ára til 70 ára er ráð­lagt að fá 15 µg á dag (600 AE) á einnig við um barns­hafandi konur
  • 71 árs og eldri er ráð­lagt að fá 20 µg á dag (800 AE)

Mikið hefur verið rætt um hvort D-víta­mín geti minnkað líkur á að sýkjast af CO­VID-19, sjá Vísinda­vef Há­skóla Ís­lands. Í ný­legri rit­stjórnar­grein í tíma­ritinu Lancet er rætt að dag­leg neysla D-víta­míns í skömmtum á bilinu 10–25 mí­krógrömm (400–1000 AE) í 12 mánuði kunni að draga úr öndunar­færa­sýkingum al­mennt, einkum hjá þeim sem hafa D-víta­mín skort fyrir. Þetta magn er í sam­ræmi við ráð­leggingar Em­bættis land­læknis um neyslu á D-víta­míni. Hægt er að lesa nánar um D-víta­mín á land­la­eknir.is og heilsuga­eslan.is.