Fyrstu niðurstöður úr Landskönnun á mataræði fullorðinna benda til að um 40% þátttakenda taka ekki D-vítamín sem fæðubót. Rannsóknir hjá börnum á grunnskólaaldri og unglingum á Íslandi benda í sömu átt.
D-vítamín er fituleysið vítamín sem myndast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar. Það er aðeins að finna í fáum fæðutegundum; í feitum fiski t.d. laxi, bleikju, lúðu, síld, sardínum og makríl, eggjarauðu og vítamínbættum vörum. Það er nær ómögulegt að fullnægja þörfinni með fæðunni einni saman og því er ráðlagt að taka inn D-vítamín sem fæðubót, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur, sérstaklega yfir vetrarmánuðina en einnig á sumrin ef notuð er sólarvörn.
D-vítamín hefur mörg mikilvæg hlutverk í líkamanum, meðal annars að stuðla að upptöku á kalki úr fæðunni og uppbyggingu beina. Magnið af D-vítamíni sem er ráðlagt er mismunandi eftir aldri:
- Fyrir ungbörn og börn á aldrinum eins árs til níu ára er ráðlagður skammtur 10 míkrógrömm (µg) á dag sem svara til 400 alþjóðlegra eininga (AE)
- 10 ára til 70 ára er ráðlagt að fá 15 µg á dag (600 AE) á einnig við um barnshafandi konur
- 71 árs og eldri er ráðlagt að fá 20 µg á dag (800 AE)
Mikið hefur verið rætt um hvort D-vítamín geti minnkað líkur á að sýkjast af COVID-19, sjá Vísindavef Háskóla Íslands. Í nýlegri ritstjórnargrein í tímaritinu Lancet er rætt að dagleg neysla D-vítamíns í skömmtum á bilinu 10–25 míkrógrömm (400–1000 AE) í 12 mánuði kunni að draga úr öndunarfærasýkingum almennt, einkum hjá þeim sem hafa D-vítamín skort fyrir. Þetta magn er í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis um neyslu á D-vítamíni. Hægt er að lesa nánar um D-vítamín á landlaeknir.is og heilsugaeslan.is.