Eina ferðina enn er vand­ræða­gangurinn í leik­skóla­málum í fréttum og for­eldrar eru æfir. Er ein­hver hissa? Á sama tíma og þeim er ætlað að afla tekna til að sjá fyrir fjöl­skyldum sínum eiga for­eldrar að annast yngstu börnin þangað til búið verður að hrófla upp hús­næði og lokka Pétur eða Pál til að sinna þeim. Af þessu til­efni vil ég minna á nokkrar ein­faldar stað­reyndir sem við sem sam­fé­lag þurfum að taka mið af.

Fé­lags­þroski árs gamalla barna er ekki háður sam­veru við jafn­aldra eða að þau komist í skóla. Mikil­vægustu þroska­skil­yrði barna fyrstu tvö árin, á meðan heili þeirra er í mestri mótun, eru að þau upp­lifi öryggi og að þeim sé hlíft við ó­hóf­legri streitu. Besta leiðin að því marki er að tryggja börnum tengsl við á­reiðan­lega full­orðna sem geta brugðist við sí­breyti­legum þörfum þeirra og glaðst yfir þeim. Þetta full­orðna fólk getur vita­skuld verið starfs­fólk leik­skóla. Þeir hæfustu eru samt oftast for­eldrar þeirra.

Það er því skyn­sam­legt að gera for­eldrum kleift að vera heima með börnum sínum fyrstu tvö árin ef þeir kjósa það, ekki með öl­musu, heldur greiðslum sem skipta máli. Þetta kæmi ekki ein­göngu fjöl­skyldum til góða heldur líka að­þrengdum leik­skólum. Margir for­eldrar árs gamalla barna munu eftir sem áður velja leik­skóla og þess vegna verður að manna þá al­menni­lega. Það þarf líka að tryggja að starfs­fólk hafi þekkingu á þörfum og við­kvæmni ungra barna og getu til að bregðast við þeim.

Fyrir­komu­lagið sem við höfum komið okkur upp er ekkert annað en það: Fyrir­komu­lag. Við bjuggum það til og við getum breytt því. Sam­fé­lagið þolir að við setjum þarfir barna ofar á for­gangs­listann og það bein­línis þarfnast þess að við tökum mark á þekkingu um mótan­leika barns­heilans og mikil­vægi tengsla. Þá munum við ala upp heil­brigðari og sterkari ein­stak­linga og spara fjár­hæðir sem munar um.

Höfundur er sálgreinir.