Sprengingar og sírenuvæl ræstu okkur hjónin nokkrar nætur í röð í Palo Alto-bæ í Kaliforníu. Bænum sem er vanur að sofa rótt. Ómanneskjulegt morð á hinum 46 ára George Floyd í Minneapolis í síðasta mánuði hefur vakið óhug um heim allan. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bandarískur lögreglumaður af lífar samfélagsþegn. Í þetta sinn horfði heimurinn á aftökuna. Glæpur George var að nota falsaðan peningaseðil.

Samkvæmt vefnum Mapping Police Violence rænir lögreglan í Bandaríkjunum árlega um 1.100 manns lífi. Svartir eru þrefalt líklegri en hvítir til að vera myrtir af lögreglu, en á sama tíma eru helmingi minni líkur á því að hinir svörtu séu vopnaðir. Þetta eru tölulegar staðreyndir.

Tvær tegundir af fólki

Kynþáttafordómar leynast víða, því miður. Sagt hefur verið: „Til eru tvær tegundir af fólki: Þau sem skipta heiminum í „við gegn þeim“ og þau sem gera það ekki,“ og að fleiri tilheyri fyrri tegundinni. Rökhugsun ræður sjaldnast skiptingunni, heldur er það undir tilfinningu komið hvort þú fáir inngöngu í „við“, eða þér verði úthýst sem „þau“. Það eru meiri líkur á að komast í „við“ ef þú tilheyrir sama kynþætti, stundar sömu trúarbrögð, heldur með sama fótboltaliði, og þar fram eftir götunum.

En hvaðan kemur þörfin að f lokka fólk í „við og þau“? Stanford-prófessorinn Robert Sapolsky hefur rannsakað heilann í þessu samhengi. Talsverðar vísbendingar eru um að það að skipta heiminum í „við-þau“ sé greypt í heilann. Ef okkur er sýnd mynd af manneskju af öðrum kynþætti í sekúndubrot (svo stuttan tíma að við erum ekki viss um af hverju myndin var) þá ræsist heilasvæðið mandla, sem er svæði ótta, kvíða og árásarhneigðar. Því meiri undirliggjandi kynþáttafordómar, því meiri virkni mælist í möndlunni. Og því sterkari tilfinning um að okkur sé ógnað. Aftur á móti ef myndin var af sama kynþætti, þá helst mandlan róleg. Það óhugnanlega er, að það er hægt að skilyrða fólk þannig að það upplifi ógn af örðum kynþáttum.

Að komast í „við“ hjá öðrum er skiljanlega eftirsóknarvert, því að aðskilnaður er einn versti sársauki sem hægt er að upplifa. Þegar maður tilheyrir „við“, þá er maður hluti af einhverju stærra

Einungis „við“

Friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019, Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, aðhyllist medemer-hugmyndafræðina, þar sem einungis „við“ þrífst. Hann vísar í afríska orðatiltækið: „Svo að þú megir eiga friðsama nótt, þarf nágranni þinn líka að eiga friðsama nótt.“ Það sé kærleikur, fyrirgefning og samstaða, sem raunverulega tengi mannkynið. Medemer stendur fyrir sameiningu fjölbreytileikans, þar sem ólík og andstæð viðhorf geta setið sátt við sama borð, og skoðanahroki á þar ekkert erindi, enda liggja rætur hugmyndafræðinnar í sjálfsþekkingu og náttúru. Þetta er alger andstæða þess sem við sjáum í kommentakerfum hins vestræna heims.

Við breytum kannski ekki hvernig ósjálfráð fyrstu viðbrögð heilans eru, en með því að staldra við og skoða eigin hugsanir, getum við breytt viðbrögðum okkar. Ef andlit af öðrum kynþætti er sýnt nógu lengi, kviknar á svæði rökhugsunar í framheilanum – svæðinu sem getur slökkt á möndlunni og kallað fram samhygð. En til að takast á við eigin fordóma þurfum við að byrja á að ígrunda eigin hugsanir. Robert Sapolsky minnir okkur einnig á að skynsemi er venjulega byggð á rökhugsun, en ekki tilfinningum frá möndlu eða öðrum heilasvæðum. Ef við opnum fyrir fjölbreytileika í „við“-hópnum okkar, þá tökum við stórt skref í átt að friðsamri nótt.