Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásmundur Friðriksson, hefur kvartað sáran undan því að fjölmiðlar birti ekki nákvæmar fréttir af komu hælisleitenda hingað til lands. Svo virðist sem honum finnist að fjölmiðlar eigi að fara í hausatalningu á þeim, til að þjóðin geti áttað sig á því hversu mikil vá er á ferð.

Til að bæta úr því sem honum finnst vera alvarleg vanræksla af hálfu fjölmiðla, hefur Ásmundur tekið sér fyrir hendur að birta reglulega á Facebook-síðu sinni tölur um fjölda þeirra einstaklinga sem lent hafa á Keflavíkurflugvelli og sótt um alþjóð¬lega vernd. Reyndar er ekki ljóst hvaðan Ásmundur hefur tölur sínar, einhver er greinilega að fóðra hann á þeim – eflaust einhver af skoðanabræðrum hans sem hefur greiðan aðgang að þeim upplýsingum. Ásmundur þykist síðan vita hver kostnaðurinn við hvern hælisleitanda er mikill, nokkrar milljónir segir hann, og finnst að það sé óafsakanlegt að eyða fjármunum í útlendinga sem ættu að hafa vit á því að halda sig heima hjá sér, eða fara eitthvert allt annað en hingað til lands.

Þessar áherslur Ásmundar falla örugglega í góðan jarðveg hjá fólki sem er eins þenkjandi og hann sjálfur. Það segir, eins og Ásmundur sagði fyrir ekki svo ýkja löngu: „Eigum við ekki nóg með okkur sjálf nún¬a?“ Orð, sem hver sá sem trúir á aðgreininguna „við“ og „hinir“, getur auðveldlega viðhaft á hvaða tíma sem er. Um leið er allt sem „hinir“ fá, hvort sem um er að ræða aðstoð eða tækifæri til betra lífs, á kostnað „okkar“. Þetta er skelfileg hugmyndafræði sem, eins og dæmin sanna, elur á andúð, hatri, fordómum og ofsóknum.

Það flokkast til mannkosta að geta sett sig í spor þeirra sem vilja af ýmsum ástæðum skapa sér tækifæri í öðru landi. Það á ekki að flokka slíka einstaklinga sem sníkjudýr og kveikja samstundis í huganum á reiknivél til að komast að því hversu mikið þurfi að borga með þeim. Ekkert skal hér fullyrt um það hversu margir á Íslandi hugsa á þessum nótum, en umræðan hér á landi opinberar að þeir eru of margir. Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson er því miður ekki eini fulltrúi þessa hóps sem situr Alþingi.

Umræddur hópur óttast mjög að útlendingar, sem að hans áliti koma ekki frá sómasamlegum löndum og hafa aðra trú en kristni, muni fylla landið, einhverjir þeirra muni taka atvinnu frá Íslendingum en flestir vera á bótum, enda algjörir vandræðapésar, eins og öllum hefði átt að vera ljóst í upphafi.

Allir sem fylgst hafa með umræðu þessa hóps um stöðu flóttamanna og hælisleitenda, vita að hugsunarhátturinn og málflutningurinn er nákvæmlega á þessum nótum. Málflutningi sem byggist á mannfyrirlitningu á ekki að taka þegjandi, heldur ber að svara af krafti. Sjálfstæðismenn ættu því að eiga ýmislegt vantalað við þingmann sinn, Ásmund Friðriksson. Nema þeir séu sammála honum og kjósi þá annað hvort að taka undir með honum eða veita orðum hans samþykki með því að þegja.