Í dag birtir IMD við­skipta­há­skólinn ár­lega út­tekt sína á sam­keppnis­hæfni ríkja, sem Við­skipta­ráð kynnir að vanda. Sam­keppnis­hæfni er stundum loðið og of­notað hug­tak, en í þessari út­tekt er meining þess skýr: Hvernig ríki stuðla að um­hverfi þar sem fyrir­tæki geta á sjálf­bæran hátt skapað verð­mæti. Á­hrif þess á lífs­gæði allra lands­manna eru af­gerandi og aug­ljós.

Ís­land stendur að ýmsu leyti vel í þessum saman­burði og er annað árið í röð í 21. sæti af 64 ríkjum. Ó­venju mikil á­hrif heims­far­aldursins hér á landi vegna vægis ferða­þjónustu vega þungt en þó má víða greina já­kvæða þróun, til dæmis í tækni­legum inn­viðum landsins og í fjár­mögnunar­um­hverfinu sem lengi hefur verið drag­bítur á sam­keppnis­hæfnina.

Það sem er sér­stakt á­hyggju­efni er að Ís­land er langt á eftir Norður­löndunum. Í 2. sæti út­tektarinnar, á eftir Sviss, er Sví­þjóð. Dan­mörk er í 3. sæti, Noregur í því sjötta og loks er Finn­land í 11. sæti. Norður­löndin hafa verið að sækja fram í sam­keppnis­hæfni á meðan Ís­land hefur staðnað. Staðan er sú að Ís­land hefur ekki staðið Norður­löndunum jafn langt að baki frá árinu 2013. Sé rýnt nánar í niður­stöðurnar er Ís­land undir meðal­tali Norður­landanna í 15 af 20 undir­þáttum. Í fjórum þáttum stendur Ís­land 1-4 sætum betur og að­eins í skatta­stefnu virðist Ís­land bera af. Við nánari skoðun helgast það þó af því að líf­eyris­kerfið hér byggist á sjóð­söfnun en ekki gegnum­streymis­kerfi.

Yfir­skrift ný­liðins Við­skipta­þings var að hugsa stærra og í sam­keppnis­hæfninni eigum við sannar­lega að hugsa stærra. Ís­land hefur alla burði til að vera með allra sam­keppnis­hæfustu ríkjum og standa jafn­fætis Norður­löndunum. Til að svo verði þurfa ís­lensk fyrir­tæki að geta staðið sig í er­lendri sam­keppni. Rekstrar­um­hverfið þarf að gera þeim það kleift og þar eru ótal tæki­færi til úr­bóta, eins og birtist í 22 til­lögum al­þjóða­hóps Við­skipta­ráðs sem fjallað var um í skýrslu Við­skipta­þings.

Senn líður að kosningum. Þar sem sam­keppnis­hæfnin hefur skýr og af­gerandi á­hrif á lífs­kjör allra lands­manna er fullt til­efni til að hún verði stórt kosninga­mál. Við skorum á flokkana að sýna á spilin í þeim efnum og leggja fram metnaðar­full en raun­hæf mark­mið um hvernig megi bæta sam­keppnis­hæfnina. Þannig getum við horft björtum augum á spennandi fram­tíð.