Við getum andað léttar. Alþingiskosningar fóru betur en á horfðist. Ríkisstjórnin hélt velli. Skoðanakannanir bentu til þess að við tæki róttæk vinstristjórn sem myndi koma efnahagslífinu á kaldan klaka með stórtækum ríkis­útgjöldum sem leiða myndu til umtalsverðrar verðbólgu. Í kjölfarið yrði Seðlabankinn að stíga á bremsuna, kæla efnahagslífið og hækka stýrivexti. Við tækju einnig skattahækkanir sem draga úr nýsköpun og efnahagsumsvifum. Til að reka smiðshöggið á meistaraverkið stóð til að draga slagkraftinn úr sjávarútvegi, einu atvinnugrein landsins sem býr yfir samkeppnisforskoti.

Björninn er þó ekki unninn. Annars vegar á eftir að koma í ljós hvaða ríkisstjórn verður mynduð. Líklegast er að sömu flokkar haldi áfram um stjórnartaumana.

Hins vegar mun halli ríkissjóðs hlaupa á hundruðum milljarða króna í ár og skattar hérlendis eru með þeim hæstu í OECD-ríkjunum. Ný ríkisstjórn þarf því að sýna skynsemi; hætta hallarekstri, draga úr skattheimtu og nýta einkarekstur í meira mæli í opinberri þjónustu.

Ný ríkisstjórn þarf einnig að leita leiða til að efla framrás hugverkaiðnaðar. Íslenska hagkerfið hefur alla tíð verið auðlindadrifið en hugverkaiðnaður hefur verið að sækja í sig veðrið.

Útflutningstekjur af hugverkaiðnaði á Íslandi hafa á átta árum tvöfaldast og skapaði hann 16 prósent af gjaldeyristekjum árið 2020. Það er mikilvægt enda eru auðlindahagkerfinu takmörk sett en möguleikar hugverkaiðnaðar eru óendanlegir.

Það sem er ekki síður mikilvægt er að hugverkaiðnaður skapar vel launuð og eftirsóknarverð störf. Á undanförnum árum hafa því miður fleiri vel menntaðir flutt úr landi en til landsins. Á sama tíma hafa minna menntaðir streymt hingað. Þessari þróun þarf að snúa við.

Hugverkaiðnaður mun ekki blómstra hér á landi nema það ríki efnahagslegur stöðugleiki, lítil verðbólga, launahækkanir séu innan svigrúms, skattheimta sé hófleg og menntakerfið öflugt. Stórt skref í þessa átt væri að ná betri tökum á kjarasamningum en þeir eiga stóran þátt í því að verðbólga, sem dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækja, hefur verið mun meiri hér en á hinum Norðurlöndunum. Verkalýðshreyfingin þarf að huga að heildarmyndinni.

Hryggjarstykkið í hagkerfinu, auðlindafyrirtækin, er fast hér á landi. Það eru tæknifyrirtæki ekki. Ísland er eyja fjarri öðrum löndum en landið á engu að síður í alþjóðlegri samkeppni um mannauð og fyrirtæki. Fleiri þurfa að tileinka sér það hugarfar.