Lands­fundur Vinstri grænna hefst í dag og það er ó­hætt að segja að bjart sé yfir þeim fundi. Hreyfingin hefur leitt ríkis­stjórn á ein­hverjum mestu um­brota­tímum í sögu okkar og farist svo vel úr hendi að eftir er tekið. Fjöldi fólks vill verða full­trúi hreyfingarinnar á Al­þingi og gefur kost á sér í for­völum og nýir fé­lagar hópast að.

Skyldi engan undra. Undir for­ystu okkar höfum við komið á um­bóta­málum. Þriggja þrepa skatt­kerfi sem léttir undir með þeim lægst launuðu og stuðlar betur að jöfnuði fest í sessi. Að­koma ríkisins að lífs­kjara­samningunum tryggð. Upp­bygging heilsu­gæslunnar og fullfjármögnuð geðheilbigðisáætlun . Mikil­væg náttúru­svæði frið­lýst og stór skref stigin í að draga úr losun. Fjöl­mörg þjóð­þrifa­mál hafa raun­gerst á þessu kjör­tíma­bili.

Þá hefur Vinstri­hreyfingin – grænt fram­boð sýnt hve vel hún er fallin til að leiða ríkis­stjórn. Við erum til­búin til þess að gera það á­fram. Við höfum okkar skýru hug­sjónir og stefnu, erum ekki í vand­ræðum með eigin sjálfs­mynd, getum því full sjálfs­trausts komið inn í sam­starf með öðrum flokkum á okkar eigin for­sendum. Sýnum á­byrgð þegar kemur að því að leiða mál til lykta.

Ég fór fyrst á lands­fund hjá VG í ár­daga hreyfingarinnar, gekk í hana strax í upp­hafi. Þá ein­kenndi spenningur og nýja­brum okkur öll; við vorum laus undan ei­lífu þvargi um leiðir og form, gátum farið að ræða mark­mið og stefnu. Ég skynja sama spenning núna og að ein­hverju leyti sama nýja­brum. Við eigum for­sætis­ráð­herra sem er lang­öflugasti stjórn­mála­maður landsins og meiri­hluti lands­manna er sam­mála okkur um að eigi að vera for­sætis­ráð­herra á­fram.

Ég hlakka til lands­fundarins. Sjálfur hef ég, sem annar hóp­stjóra, unnið að stefnu um lofts­lags­mál og náttúru. Mest hlakka ég samt til að hlusta á fé­lagana. Stjórn­mála­flokkar eru nefni­lega sam­fé­lög þar sem hver rödd skiptir máli. Al­þingis­menn hafa það þjónandi hlut­verk að hlýða á þær raddir.