Á líðandi kjörtímabili lagði ég áherslu á málefni barna. Verkefnið var umfangsmikið og er sennilega mesta breyting sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna taka gildi næstkomandi áramót og fela það í sér að barnið verður hjartað í kerfinu. Það þýðir að þjónustan kemur til barnsins, og fjölskyldu þess, en að barnið þurfi ekki að fara og nálgast þjónustuna. Þjónusta við börn hefur að margra mati verið völundarhús að rata um, en með þessum nýju lögum breytist það.

Barnamál 2.0

Þessi lög og þessi nýja nálgun í málefnum barna eru þó aðeins grunnurinn að húsinu sem við erum að byggja.

Ofan á þessi lög þurfa að koma fleiri úrræði þannig að við þjónum hagsmunum barna og fjölskyldna sem best. Þetta hef ég kallað Barnamál 2.0 og er næsta skref í breytingunum í málefnum barna.

Þar er brýnast að takast á við þann vanda að börn bíða alltof lengi eftir þjónustu í mörgum tilfellum. Til að takast á við það ætlum við að bjóða börnum upp á þjónustutryggingu. Í henni felst að eyða biðlistum fyrir börn með þeim hætti að ef kerfið getur ekki veitt viðeigandi þjónustu innan skynsamlegs biðtíma, þá mun ríkið fjármagna þjónustu veitta af hálfu einkaaðila.

Fjárfestum í fólki

Verkefnið á næsta kjörtímabili er að klára þessa stóru kerfisbreytingu. Ég brenn fyrir málefnum barna og mun leggja allt undir til þess að láta það verða að veruleika. Við erum rétt að byrja, en við höfum varðað leiðina og ég þarf þinn stuðning til þess að komast á leiðarenda.

Málefni barna eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur öll og mig langar ekkert frekar en að klára verkefnið á næsta kjörtímabili.

Fjárfestum í fólki og setjum X við B á laugardaginn.