Fjölskyldunni var boðið í fimm ára afmæli nýverið. Boðskortinu fylgdu reglur um afmælisgjafir. Þær voru afþakkaðar. Gætu gestir hins vegar ekki setið á sér mátti færa afmælisbarninu eitthvað ætilegt eða eitthvað notað úr eigin fórum. Ég blótaði ábyrgðarfullum, loftslagsmeðvituðum foreldrunum í sand og ösku.

Skildu þau ekki að við sem höfðum þekkt dóttur þeirra frá fæðingu vildum tjá væntumþykju okkar í gljáfægðu harðplasti, batteríknúnu með blikkandi ljósum? Skildu þau ekki að útivinnandi foreldrar hafa ekki tíma til að fara í gegnum skápana í leit að einhverju heillegu sem gengið gæti í endurnýjun lífdaga og þess vegna fann Amazon upp „one-click buy“ takkann?

Sextíu og tveir dagar eru nú til jóla. Andi Ebenezer Scrooge svífur hins vegar yfir vötnum hér í Bretlandi þar sem ég bý. Breskir kaupmenn vöruðu nýverið við aðsteðjandi vá. Vöruskortur gæti skollið á fyrir jólin vegna tafa á vöruflutningum. Greiningardeild Shore Capital telur líkur á að jólagjafir barna muni ekki standast væntingar.

Helst sé hætta á skorti á leikföngum og rafmagnstækjum og spáir fjárfestingasjóðurinn því að jólin „gætu orðið martraðarkennd“.

Líf eða lífsstíll

Vegna heimsfaraldursins vörðum við fjölskyldan síðustu jólum í London en ekki á Íslandi. Við reyndum þó að líkja eftir íslenskum jólum. Við höfðum uppi á tegund af grænum baunum í dós sem voru jafn maukkenndar og Ora-baunir. Við keyptum sænskar piparkökur, þýskt rauðkál og reykta andabringu sem við töldum okkur trú um að smakkaðist eins og hangikjöt.

Á miðju jólaborðinu var hins vegar tóm sem ekki tókst að fylla.Í heilt ár hef ég hlakkað til að gæða mér á íslenskri rjúpu um jólin. Ég varð því hvumsa þegar fréttir bárust af ástandi íslenska rjúpna­stofnsins sem hefur sjaldan mælst minni. Ég bölvaði Náttúrufræðistofnun Íslands í sand og ösku sem lagði til takmarkaðar veiðar.

Skildu þau ekki að rjúpa er órjúfanlegur hluti jólanna? Skildu þau ekki að ég fékk enga rjúpu í fyrra svo að ég á skilið að fá rjúpu í ár?

Stórhátíðir, jól og afmæli hverfast um hefðir. En það er ekki aðeins á tyllidögum sem við viljum hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið.Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, fer fram í Glasgow í nóvember. Gögn, sem lekið var til fjölmiðla í lok vikunnar, sýna að fjöldi þátttökuríkja þrýstir nú á um breytingar á skýrslu vísindamanna um hvernig berjast megi gegn loftslagsvánni.

Ráðunautur olíumálaráðuneytis Sádi-Arabíu krefst þess að öllum ummælum um „að brýn þörf sé á minnkun á hvers konar losun“ sé eytt úr skýrslunni. Brasilía og Argentína, helstu nautakjötsræktendur heims, leggjast gegn því að minnst sé á mikilvægi þess að dregið sé úr kjötneyslu.

Baráttukonan Greta Thunberg er svartsýn í aðdraganda COP26. Hún sakar þjóðarleiðtoga um að neita „að viðurkenna að við stöndum frammi fyrir vali milli þess að bjarga lífi á jörðinni eða lífsstíl sem stendur ekki undir sér“.

Svartsýni Gretu er á rökum reist. Veröldin stendur á barmi hyldýpis en váin sem við sjáum er hugsanlegur skortur á Hvolpasveitarvarningi fyrir jólin. Við smellum á „one-click“ gereyðingartakkann á Amazon jafnvel þótt við vitum að tímanum sem sparast stelum við af komandi kynslóðum.

Rjúpa, olía, nautasteik; við erum öll Sádi-Arabía inn við beinið.Breytingar eru ógnvekjandi. En þótt hlutirnir verði öðruvísi þurfa þeir ekki að vera verri. Fimm ára vinkona mín var himinlifandi með notaðan kjól af dóttur minni í afmælisgjöf. Því eina gjöfin sem skiptir máli, einu væntingarnar sem þurfa að standast, eina tómið sem þarf að fylla, er framtíðin.