Ferðaþjónusta á Íslandi hefur verið að glíma við gríðarlega erfiðleika á undanförnum misserum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Á nokkrum dögum varð algert hrun í ferðaþjónustu hér á landi og fyrirtæki í greininni horfa fram á gríðarlegan samdrátt og mörg hver algert tekjufall.

Eitt stærsta og mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi, hvort sem horft er til ferðaþjónustu eða atvinnulífsins almennt, Icelandair, hefur ekki farið varhluta af því. Stjórnendur fyrirtækisins vinna nú myrkranna á milli til þess að tryggja rekstur félagsins til framtíðar. Sömu sögu er að segja um stjórnendur flestra ef ekki allra annarra ferðaþjónustufyrirtækja í landinu.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá á Icelandair nú í viðræðum við fjölmarga aðila um framtíð fyrirtækisins - við lánardrottna, hluthafa, flugvélaleigusala, ríkið og starfsmenn sína. Stjórnendur Icelandair eru á sama báti og aðrir stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu – þeir þurfa að leita allra leiða til að komast hjá því að fyrirtækið fari í þrot.

Gjaldþrot Icelandair yrði risastórt áfall fyrir íslenska ferðaþjónustu og þar með íslenskt efnahagslíf, sem yrði í kjölfarið mun lengur að ná sér upp úr lægðinni og þar með yrði mun erfiðara að verja þau lífskjör sem við höfum byggt upp og viljum búa við. Því myndi óhjákvæmilega fylgja meira atvinnuleysi um lengri tíma og annar samfélagslegur kostnaður sem bráðnauðsynlegt er að vinna gegn með öllum ráðum. Ferðaþjónusta á Íslandi yrði mörg ár að ná sér á strik á nýjan leik, enda hefur flugfélagið gegnt lykilhlutverki í að byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi sem burðaratvinnugrein.

Markaðshlutdeild Icelandair í flutningi á erlendum ferðamönnum til landsins á síðustu 5 árum hefur verið í kringum 35-45%, árið 2019 var hlutfallið um 67%. Þessu til viðbótar hefur félagið verið umsvifamikið í farþegaflutningum á milli Ameríku og Evrópu með viðkomu á Íslandi um langt árabil ásamt því að Íslendingar hafa farið í hundruð þúsunda flugferða með félaginu árlega undanfarin ár. Þá er ótalinn útflutningur sjávarafurða sem flugvélar Icelandair hafa gert mögulegt að koma hratt á verðmæta markaði. Mikilvægi flugfélagsins fyrir efnahagslíf og alla ferðaþjónustu á Íslandi er því algert.

Icelandair er flaggskip íslenskrar ferðaþjónustu. Eitt af mikilvægustu skrefum í endurreisn ferðaþjónustunnar hér á landi hlýtur að vera að tryggja og endurskipuleggja starfsemi félagsins þannig að það sé samkeppnishæft til lengri tíma í gríðarlegri samkeppnisbaráttu flugfélaga á alþjóðamarkaði.

Gjaldþrot Icelandair yrði risastórt áfall fyrir íslenska ferðaþjónustu og þar með íslenskt efnahagslíf, sem yrði í kjölfarið mun lengur að ná sér upp úr lægðinni

Stjórnendur Icelandair hafa sýnt mikla djörfung að undanförnu og keppa nú að því dag sem nótt að bjarga félaginu. Einn mikilvægasti þátturinn í því er að ná langtímasamningum við flugstéttir. Það er alveg ljóst að fjárfestar gera kröfu um lægri einingakostnað og vissulega vill engin starfsstétt gefa eftir kjör sín í venjulegu árferði. Tillögur Icelandair að breyttum kjarasamningum virðast hins vegar brúa bil beggja, sem er nokkuð afrek. Um leið er félagið að sýna samfélagslega ábyrgð og er að framfylgja því sem stjórnvöld hafa óskað eftir, að reyna að vernda störfin eins og hægt er. Sömu sögu er að segja um fjölmörg önnur ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi – stjórnendur og starfsmenn þeirra hafa tekið höndum saman um að tryggja sem best að fyrirtækin verði í tilbúin í slaginn þegar tækifærin gefast á ný.

Framtíð ferðaþjónustunnar er björt og við höfum alla burði til að verða eftirsóttur áfangastaður þegar fram í sækir. En Ísland á auðvitað í samkeppni við aðra eftirsótta áfangastaði um heim allan og við þurfum að fara í stórátak til að koma Íslandi aftur á kortið.

Í gær tilkynntu stjórnvöld um tilslakanir varðandi komur erlendra ferðamanna til landsins og er það jákvætt skref sem við þurfum að nýta vel. Þegar ferðamenn fara að fljúga um heiminn á nýjan leik skiptir öllu máli fyrir ferðaþjónustu á Íslandi að hafa hér burðugt og samkeppnishæft flugfélag. Það mun skipta höfuðmáli fyrir okkur öll, enda erum við öll í sama liði.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.