Ísland er að breytast hratt og til hins betra. Einsleitni er ekki lengur ráðandi og Íslendingar eru alls konar. Við sem lítum út fyrir að geta rakið ættir okkar til miðalda í Íslendingabók þurfum að aðlagast nýjum veruleika. Eins og dæmin sanna gengur sú aðlögun upp og ofan.

Forsenda þess að við getum byggt upp lýðræðislegt fjölmenningarsamfélag er að við öll horfumst í augu við eigin fordóma, afneitum þeim ekki heldur göngumst við þeim og vinnum með þá.

Hversdagslegur rasismi sem birtist í alls kyns öráreitum er daglegt hlutskipti margra samborgara okkar. Hann getur birst á tiltölulegan meinlausan en afar þreytandi hátt, til dæmis með því að einstaklingar eru ávarpaði á ensku í verslunum og á vinnustöðum. Hann getur birst sem áreiti, beint og óbeint:

Má ég snerta á þér hárið?

Hvaðan ertu? Úr Breiðholtinu? Nei, ég meina HVAÐAN ertu?

Hann birtist í því að heyra ekki hvað fólk er að segja heldur hvernig það segir það.

Og þannig mætti áfram telja.

Í athugasemdakerfum fjölmiðlanna virðist markaleysið algert. Þar fær hatursorðræðan að bólgna út í ógeðfelldri blöndu af íslamófóbíu, rasisma og kvenfyrirlitningu. Ég velti því fyrir mér hvort skrifarar mundu láta það sem þar má lesa út úr sér augliti til augliti við manneskjuna sem um ræðir.

Hinum kerfislæga rasisma verður ekki heldur afneitað. Nýlegt dæmi um framgöngu lögreglunnar við leit að strokufanga afhjúpaði hann með sársaukafullum hætti. Við erum öll jöfn fyrir lögunum – eða hvað?

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum og nú reynir á að stjórnmálafólk skynji og skilji hlutverk sitt og ábyrgð og taki forystu í baráttunni gegn mismunun og rasisma hér á landi. Eigi það að takast skulum við ekki afneita veruleikanum, heldur viðurkenna eigin fordóma, vanda okkur í daglegum samskiptum og ráðast af öllu afli gegn kerfislægum rasisma.