Yfirvofandi lok síðasta þingvetrar þessa kjörtímabils bera völdum afturhaldsins í landinu glöggt vitni. Ekkert bendir til annars en að núverandi stjórnarmynstur festi sig í sessi á næstu kjörtímabilum með þeirri hættu að afturhaldið ráði lögum og lofum ekki aðeins í ríkisstjórnarsamstarfi heldur einnig í stjórnarandstöðu.

Enginn skilur eins vel og afturhaldið að það er auðveldara að berjast gegn framfaramálum en að koma þeim í verk. Slík mál komast ekki í gegnum þingið því jafnvel þótt ráðherrar kunni með herkjum að þvinga mál í gegn sín megin, menguð eftir atvikum, þá brestur á með málþófi af hálfu afturhaldsins í stjórnarandstöðunni.

Þetta á við um flest mál sem nú eru strand í þinginu. Mannúðarstefna í vímuefnamálum er stöðvuð af afturhaldi sem ber fyrir sig góðmennsku en ekki grimmd. Afnám áfengissölubanns er stöðvað af 19. aldar kenningum templara og einokunarsinnar í afturhaldsröðum koma í veg fyrir frjálsara kerfi til að þiggja bílfar gegn greiðslu. Enn má fólk ekki ráða hvað það heitir heldur ræða menn í fullri alvöru að útvíkka svið mannanafnanefndar yfir á bókstaflega hvert einasta fyrirbæri sem unnt er að gefa íslenskt heiti, í nafni stjórnarskrárverndar íslenskrar tungu. Það bítur svo höfuðið af skömminni að þessi fásinna er hugsuð sem plástur og sárabót fyrir þann verknað afturhaldsins að hafa staðið í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá í fjögur kjörtímabil.

Fátt hefur gefið afturhaldinu meiri völd á undanförnum árum en mikil fjölgun stjórnmálaflokka. Fjöldi flokka flækir myndun ríkisstjórna með þeirri hættu að afturhaldið tryggi sér alltaf sæti bæði í stjórn og í stjórnarandstöðu. Það er auðvitað ósanngjarnt að kenna nýju flokkunum um þessa stöðu, enda að stórum hluta fórnarlömb í málinu. Margir þeirra hafa nefnilega fleiri kjósendur á bak við sig en gömlu flokkarnir, en engan þingstyrk, og í því liggur vandinn.

Afturhaldið er, eðli málsins samkvæmt, öflugra á landsbyggðinni og þar eru öll atkvæðin. Kjósendurnir, sem búa flestir í þéttbýli eru orðnir gráhærðir af afturhaldsstefnu flestra rótgróinna stjórnmálaflokka og úr þeirri gremju spretta nýir flokkar.

Kjördæmakerfið er ekki aðeins alvarlegt vandamál heldur erum við beinlínis í lýðræðiskrísu. Afturhaldið heldur eflaust sjálft að það geti haldið völdum svo lengi sem engum tekst að opna stjórnarskrána upp á gátt. Atkvæðin sem völdin hanga á eru hins vegar orðin svo þunn, fá og feyskin að þolinmæði meginþorra kjósenda í landinu hlýtur að bresta fyrr eða síðar. Það hefur gerst víða um heim og stundum endað illa.

Að loknum kosningum í haust ættu frjálslyndu öflin í landinu, sem eru vissulega enn til innan margra flokka, að sameinast um að leggja nýju stjórnarskrána í salt um tíma og einhenda sér í uppstokkun kjördæmakerfisins. Ef þau standa saman þvert á flokka gegn afturhaldi, hvort heldur er úr eigin röðum eða úti í samfélaginu, mun það takast. Við getum borið afturhaldið ofurliði, við erum fleiri. Miklu fleiri.