Þetta byrjaði sem brandari á líflegu öldurhúsi fyrir tuttugu árum: Stofnum skákfélag og sendum lið til keppni í 4. deild á Íslandsmóti skákfélaga, vinnum okkur þráðbeint upp í efstu deild og verðum Íslandsmeistarar! 

Höfundur þessarar langsóttu hugmyndar var skákmeistarinn og snillingurinn Dan Hansson, sænskrar ættar, og við félagar hans hentum þennan góða brandara á lofti. Þar með fæddist Hrókurinn, 12. september 1998, á Grandrokk við Klapparstíg. Dan lést ári síðar, langt fyrir aldur fram, en við vinir hans ákváðum að gera það sem hann hafði mælt fyrir um. Næstu árin sópuðum við saman öllum tiltækum gullverðlaunum á Íslandsmóti skákfélaga. Árið 2003 sigraði A-lið Hróksins í 1. deild, B-liðið í 2. deild og C-liðið í 3. deild. Þetta var orðið ágætt.

Og við snerum okkur alfarið að því að útbreiða fagnaðarerindi skáklistar, vináttu, gleði og kærleika, undir kjörorðunum: Við erum ein fjölskylda.

Í þeim anda heimsóttum við alla grunnskóla á Íslandi, hvert einasta sveitarfélag, héldum alþjóðleg stórmót, hófum vikulegar heimsóknir í Barnaspítala Hringsins, víðtækt starf meðal fólks með svokallaðar geðraskanir, heimsóttum fangelsi, athvörf, leikskóla, dvalarheimili. Og árið 2003 byrjaði Grænlandsævintýri Hróksins, óendanlega gefandi verkefni sem hefur kennt okkur ótalmargt, enda búa Íslendingar svo vel að eiga bestu nágranna í heimi. 

Nú stendur einmitt sem hæst hátíð Hróksins í bænum Kullorsuaq, sem er á 73. breiddargráðu á vesturströnd Grænlands. Þar erum við með skákkennslu og sirkusskóla og listsmiðju, því Hrókurinn snýst um svo miklu meira en skák, þótt hún sé frábært verkfæri; alþjóðlegt tungumál sem ALLIR geta lært, sér til gagns og gleði.

Við höfum notið þeirrar gæfu að kynnast ótalmörgu frábæru fólki úr öllum áttum, og við höfum unnið með samtökum á borð við Fatimusjóðinn, UNICEF, Rauða krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar og Barnaheill að góðum málefnum. 

Fyrir hönd Hróksliða þakka ég öllum sem hafa tekið þátt í okkar starfi í tuttugu ár, stutt okkur og hvatt til dáða, í orði og verki.

Í dag, föstudaginn 14. september kl. 17, bjóðum við til Afmælismóts Hróksins í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar mæta til leiks flestir bestu skákmenn Íslands, erlendir gestir, gamlir og nýir vinir, allt í anda kjörorða Hróksins: Við erum ein fjölskylda.