Nú stendur vetrarfrí yfir í flestum grunnskólum höfuðborgarsvæðisins og þetta árið hættu fáir sér út fyrir landsteinana… út af soltlu. Íslendingar eru nánast kyrrsettir á Fróni og vilja auðvitað eftir fremsta megni gera sér glaðan dag, innan settra marka.

Stemningin í ár var svo mikil að skíðasvæði landsins voru flest fyrirfram sprungin en skíðaiðkendum sem og stjórnendum svæðanna til mikillar ánægju voru reglur rýmkaðar á upphafsdegi frísins.

Foreldrar grunnskólabarna reyna ár hvert eftir bestu getu að taka sér frí þá daga sem börnin eru í vetrarfríi og hlýða hvatningu um að gera sér dagamun með börnunum og nýta tímann til heilbrigðrar dægradvalar.

En hver ákvað að nánast allir skólar höfuðborgarsvæðisins skyldu loka dyrum sínum á sama tíma? Fríið sem getur svo sannarlega verið kærkomið uppbrot á vetrinum og gæðatími fyrir fjölskyldufólk getur nefnilega einnig verið heilmikill höfuðverkur.

Í nágrannalöndunum liggur starfsemi fjölmargra stofnana og fyrirtækja oftar en ekki niðri meðan á slíkum skólafríum stendur en það er sjaldgæfara hér. Ekki mæta allir vinnustaðir því með skilningi að fólk vilji taka sér frí á miðjum vetri og geta jafnvel ekki mætt þeim óskum, sér í lagi þegar fjölmargir starfsmenn ætla sér burt á sama tíma.

Á Akureyri var allt stappfullt um helgina, uppselt í Hlíðarfjall og uppbókað á flesta veitinga- og gististaði. Akureyringar áttu sjálfir í tómum vandræðum með að halda upp á konudaginn þar sem aðkomufólk fyllti alla veitingastaði sem enn þurfa að sætta sig við fjöldatakmarkanir.

Heyrst hafa sögur af því að jafnvel hafi verið boðið í löngu uppurnar borðabókanir. Hvort sem það er orðum aukið eður ei, efast ég ekki um að vertar Norðurlands fagni uppganginum. En hefði ekki verið þjóðráð að dreifa bissnessnum á nokkrar helgar nú þegar við vitum að fjölmargir hafi þurft frá að hverfa? Hver er í raun pælingin á bak við að allir fari af stað á sama tíma? Hentar það kannski hjarðhegðun þjóðarinnar best – að allir geri það sama, á sama tíma? Nú þegar enn eru í gildi fjöldatakmarkanir um allt land vegna COVID-19 er jafnvel enn undarlegra en áður að straumurinn liggi að miklu leyti í eina átt.

Persónulega hefði ég verið líklegri til að leggja land undir fót ef fjöldanum hefði aðeins verið dreift betur og ég efast um að ég sé ein um það. Íslenskur vetur er alveg nógu langur til að vetrarfrí geti verið á víð og dreif um hann þveran og endilangan.

En kannski er ég bara í fýlu því ég er að skrifa þennan leiðara á meðan ALLIR og amma þeirra eru í Hlíðarfjalli með krakkana…