Heil­brigðis­yfir­völd hafa unnið frá­bær­lega í gegnum CO­VID-19 og leitt að­gerðir okkar í sótt­vörnum til árangurs sem er að­dáunar­verður. Samt segi ég að við getum orðið enn betri fyrir­mynd og sýnt enn meiri á­byrgð með því að sýna fá­tækum löndum um­hyggju ein­mitt núna. Núna eru þessi vatna­skil í CO­VID-19 og bólu­setning er hafin. Það er því miður ekki sami árangurinn eða af lið hjá öllum þjóðum og því vaknar þessi hug­leiðing um á­byrgð okkar Ís­lendinga. Við höfum tryggt okkur heil­mikið bólu­efni og við vitum þess vegna að það kostar sitt. Þegar við lítum í kringum okkur sjáum við að við erum á pari við vel­megunar­þjóðir Evrópu og fylgjum þeim fremstu. En víða í ver­öldinni eru ríki sem hafa hvorki öf lugt heil­brigðis­kerfi né bol­magn til að kaupa inn bólu­efni sem þó er til og myndi geta leyst milljónir undan þjáningu og missi.

Í stað þess að byrja að metast um for­gangs­röðunina við bólu­setninguna, sem allir fá á endanum hér heima sem vilja, ættum við að bóka bólu­efni handa þeim sem ekki ráða við það sjálf. Eigum við ekki að vera stór sem þjóð og sjá til þess að með pöntunum okkar á bólu­efni hingað til lands myndum við sam­hliða taka á­byrgð á pöntunum handa þeim þjóðum sem annars verða langt á eftir? Það væri ó­skandi að við gætum alla­vega byrjað sjálf á því að styðja fá­tækustu ríkin af þeim sem við erum nú þegar að vinna með að þróunar­verk­efnum. Hér er því boltinn á lofti hjá utan­ríkis­þjónustu, þróunar­sjóðum og hjálpar­stofnunum gagn­vart þeim löndum þar sem við þekkjum til. Við getum byrjað þar og það yrði bæði tákn­rænt og til fyrir­myndar.

Það yrði al­var­legt slys fyrir heiminn í heild sinni ef fjöldi landa ætti ekki mögu­leika á þessari sjálf­sögðu lausn og vörn gegn miklum vá­gesti. Það gæti orðið að við­varandi plágu og mann­felli. Slíkur veik­leiki í vörninni myndi veikja heims­byggðina sem heild.

Varnaðar­orðin okkar núna ættu að vera reynslan af að­gangi að lyfjum gegn eyðni sem varð til þess að eyðni er haldið í skefjum um stóran hluta heimsins. En þar sem það var dýrt lyf leyfðum við eyðni að strá­fella fólk í fá­tækustu löndunum í ára­tugi. Enga tölu höfum við á fjölda for­eldra­lausra barna vegna þeirrar plágu. Við getum ekki látið það gerast núna og því ætti ráða­fólk okkar að sýna gott for­dæmi og hvetja með því allar aðrar vel­megandi þjóðir til að gera slíkt hið sama. Sem vel menntuð, al­mennt trúuð og á­hrifa­mikil sjálf­stæð þjóð leyfist okkur ekki að skilja nokkurt einasta sam­fé­lag fólks eftir þegar góð lausn virðist hafa verið fundin með bólu­setningu. Út frá lífs­gildum okkar, sið­ferði­legum gildum og mann­kær­leika ber okkur að sýna þessa á­byrgð.