Heilbrigðisyfirvöld hafa unnið frábærlega í gegnum COVID-19 og leitt aðgerðir okkar í sóttvörnum til árangurs sem er aðdáunarverður. Samt segi ég að við getum orðið enn betri fyrirmynd og sýnt enn meiri ábyrgð með því að sýna fátækum löndum umhyggju einmitt núna. Núna eru þessi vatnaskil í COVID-19 og bólusetning er hafin. Það er því miður ekki sami árangurinn eða af lið hjá öllum þjóðum og því vaknar þessi hugleiðing um ábyrgð okkar Íslendinga. Við höfum tryggt okkur heilmikið bóluefni og við vitum þess vegna að það kostar sitt. Þegar við lítum í kringum okkur sjáum við að við erum á pari við velmegunarþjóðir Evrópu og fylgjum þeim fremstu. En víða í veröldinni eru ríki sem hafa hvorki öf lugt heilbrigðiskerfi né bolmagn til að kaupa inn bóluefni sem þó er til og myndi geta leyst milljónir undan þjáningu og missi.
Í stað þess að byrja að metast um forgangsröðunina við bólusetninguna, sem allir fá á endanum hér heima sem vilja, ættum við að bóka bóluefni handa þeim sem ekki ráða við það sjálf. Eigum við ekki að vera stór sem þjóð og sjá til þess að með pöntunum okkar á bóluefni hingað til lands myndum við samhliða taka ábyrgð á pöntunum handa þeim þjóðum sem annars verða langt á eftir? Það væri óskandi að við gætum allavega byrjað sjálf á því að styðja fátækustu ríkin af þeim sem við erum nú þegar að vinna með að þróunarverkefnum. Hér er því boltinn á lofti hjá utanríkisþjónustu, þróunarsjóðum og hjálparstofnunum gagnvart þeim löndum þar sem við þekkjum til. Við getum byrjað þar og það yrði bæði táknrænt og til fyrirmyndar.
Það yrði alvarlegt slys fyrir heiminn í heild sinni ef fjöldi landa ætti ekki möguleika á þessari sjálfsögðu lausn og vörn gegn miklum vágesti. Það gæti orðið að viðvarandi plágu og mannfelli. Slíkur veikleiki í vörninni myndi veikja heimsbyggðina sem heild.
Varnaðarorðin okkar núna ættu að vera reynslan af aðgangi að lyfjum gegn eyðni sem varð til þess að eyðni er haldið í skefjum um stóran hluta heimsins. En þar sem það var dýrt lyf leyfðum við eyðni að stráfella fólk í fátækustu löndunum í áratugi. Enga tölu höfum við á fjölda foreldralausra barna vegna þeirrar plágu. Við getum ekki látið það gerast núna og því ætti ráðafólk okkar að sýna gott fordæmi og hvetja með því allar aðrar velmegandi þjóðir til að gera slíkt hið sama. Sem vel menntuð, almennt trúuð og áhrifamikil sjálfstæð þjóð leyfist okkur ekki að skilja nokkurt einasta samfélag fólks eftir þegar góð lausn virðist hafa verið fundin með bólusetningu. Út frá lífsgildum okkar, siðferðilegum gildum og mannkærleika ber okkur að sýna þessa ábyrgð.