Ég er ekki köttur,“ reyndi lögmaður að sannfæra dómara um í eignasviptingamáli í Bandaríkjunum. Vegna aðstæðna fara slík dómsmál fram á Zoom, þar sem hægt er að breyta um bakgrunn og útlit og jú, vera köttur.

Lögmaðurinn hugsaði þetta ekki alla leið. Á skjánum birtist hinn krúttlegasti kettlingur. Kettlingur sem hefði fengið hörðustu andstæðinga til að bráðna. Með því að vera köttur hefði lögmaðurinn örugglega fengið meiri samúð dómara og annarra viðstaddra en venjulegt og eflaust þreytulegt andlit miðaldra lögmanns.

Mögulega hefur lögmaðurinn haft áhyggjur af leiðinda palladómum um ketti sem stundum er dreift, helst af hundafólki. Það átti til að mynda við klára og skemmtilega vinkonu mína sem hefur þann helsta galla að þekkja lítið til katta.

Fyrir um áratug kom hún þeirri sögu af stað að það væri erfitt að smala köttum. Tilbúningi sem nú er rétt að leiðrétta. Auðvitað átti hún við stjórnmálamenn. Sem ég get sagt af nokkurri reynslu að eru mun erfiðari til smölunar en kettir. Við kisurnar förum oft saman í göngutúra. Þá þarf reglulega að hóa á kettina sem skoða nágrennið heldur nákvæmar en ég. Iðulega koma fleiri kettir til baka en kallað var á, því kettir hafa alls ekkert á móti því að vera smalað. Svo lengi sem þeim er smalað í rétta átt.

Kettir eru félagsverur sem elska að vera þar sem aðrir eru. Þeir eru elskulegir snyrtipinnar sem kunna að lifa í núinu. Og geta sofið nánast hvar sem er. Því erum við ekki bara kettir?