Undanfarin ár hefur Ísland vakið mikla athygli á heimsvísu fyrir stöðu jafnréttismála. Samkvæmt árlegri skýrslu um kynjajafnrétti, sem gefin er út af Alþjóðaefnahagsráðinu, World Economic Forum, hefur Ísland trónað á toppnum síðastliðin þrettán ár, þar sem jafnréttisbaráttan er lengst á veg komin. Þá getum við öll klappað okkur á bakið, slappað af og hætt þessari jafnréttisbaráttu – Jibbí! Þetta er komið! … eða hvað?

Við nánari skoðun á skýrslunni koma í ljós nokkur atriði sem gera það að verkum að Ísland trónir á toppnum. Mikil þátttaka kvenna í pólitík og jafnt hlutfall kynja í embættum ráðherra eru meðal þeirra þátta sem færa Ísland ofar á listann. Á móti því vegur að skortur er á kvenkyns stjórnendum í atvinnulífinu. Góður árangur í réttindabaráttu kvenna verður því ekki rakinn til atvinnulífsins.

Staðreyndin er sú að við eigum enn langt í land til þess að ná fullkomnu jafnrétti. Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi voru samþykkt árið 2010 og tóku að fullu gildi árið 2013. Lögin, sem ná til fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri, gera kröfu um að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40%. Markmiðið með lagasetningunni var að „stuðla að jafn­­­ari hlut­­föllum kvenna og karla í áhrifa­­stöðum í hluta­­fé­lögum og einka­hluta­­fé­lögum.“ Samkvæmt mælaborði Jafnvægisvogarinnar er hlutfall kvenna, sem sitja í stjórnum fyrirtækja á Íslandi eingöngu 24,7% og hlutfall kvenkyns forstjóra/framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja eingöngu 23,9%. Hlutfall kvenna, sem gegna stöðu forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina, er í sögulegu hámarki. Í dag eru þar þrjár konur og 19 karlar. Ásta Fjeldsted, forstjóri Festi, bættist við á dögunum og var ráðning hennar risastórt skref í sögu Kauphallarinnar því Ásta er fyrsta konan sem ráðin er í stöðu forstjóra eftir að fyrirtæki hefur verið skráð þar inn, aðrar komu í gegnum skráningu síns fyrirtækis, sem þær höfðu leitt um árabil.

Á meðan munurinn á stöðu kvenna og karla er svona mikill getum við ekki staðið upp stolt og sagst vera heimsmeistarar í jafnrétti. Því þetta er svo sannarlega ekki komið! Góðu fréttirnar eru þær að grunnurinn er að byggjast og við höfum því í alvörunni raunverulegan möguleika á að vera best, í alvörunni best.

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er mikilvægt samfélagsmál og ávinningurinn er mikill, bæði fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild. Rannsóknir hafa sýnt fram á að aukið jafnvægi kynja í stjórnendahópnum leiði til betri ákvarðanatöku og bættrar efnahagslegrar afkomu fyrirtækja. Þá geta fyrirtæki orðið eftirsóttir vinnustaðir fyrir framsækið fólk, því rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að aukið jafnrétti eykur starfsánægju hjá báðum kynjum. Starfsánægjan helst svo í hendur við ánægju viðskiptavina því rannsóknir hafa sýnt að ánægðir starfsmenn veita betri þjónustu sem skilar sér til viðskiptavinanna sem svo á endanum eykur líkurnar á bættum hagnaði.

Jafnrétti er ákvörðun sem stjórnendur taka meðvitað, fylgja henni svo eftir og framkvæma. Jafnréttisbaráttan á að vera hagsmunabarátta allra, ekki bara kvenna. Þetta snýst ekki um að henda körlunum út eftir margra ára vel unnin störf heldur er fyrsta skref stigið strax með næstu ráðningu og svo koll af kolli. Það er enginn skortur á hæfum konum í íslensku viðskiptalífi.

Við þurfum öll að taka höndum saman og knýja fram þessar breytingar sem snúa að hagsæld þjóðarinnar.

Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvog FKA er unnin í samstarfi við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Ríkisútvarpið. Verkefnið hefur verið í vinnslu frá árinu 2017 og hefur nú náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að bæta efnahagslega afkomu fyrirtækja með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. Þátttakendur Jafnvægisvogarinnar eru orðnir tæplega 200 talsins, en öll fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta skráð sig til þátttöku og heitið því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar um að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar.

Árleg ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, Jafnrétti er ákvörðun, fer fram fimmtudaginn 12. október klukkan 12.00, og verður streymt í beinni útsendingu á ruv.is. Flutt verða erindi frá Birgi Jónssyni, forstjóra Play, Ástu Fjeldsted, forstjóra Festi, dr. Ástu Dís Óladóttur, dósent í stjórnun og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, og Braga Valdimari Skúlasyni, þáttastjórnanda Orðbragðs. Auk þess munu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Eliza Reid forsetafrú flytja ávörp. Jafnframt mun Eliza veita viðurkenningar til þeirra fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberu aðila sem eru þátttakendur Jafnvægisvogarinnar og hafa náð að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar. Skráning er hafin á heimasíðu Jafnvægisvogarinnar: jafnvaegisvogin.is og er aðgangur ókeypis.

Ég hvet alla stjórnendur til að setja jafnréttismálin í forgang og leggja sitt af mörkum í þessu mikilvæga málefni. Skráning fer fram á www.jafnvaegisvogin.is. Jafnrétti er ákvörðun!