Daglegu lífi flestra lifandi manna í heiminum hefur verið slegið á frest en stjórnendur landsins fást við daglegt amstur. Í dag funda þingnefndir um þau frumvörp sem lögð hafa verið fram. Í gær var rætt um kynrænt sjálfræði, jafnrétti kynjanna, mannanöfn og skipun embættismanna í utanríkisþjónustunni. Starfsmenn Stjórnarráðsins vörðu deginum í passa að borgararnir ónáðuðu ekki sjávarútvegsráðherra með óþægilegum spurningum. Þríeykið þuldi upp tölur dagsins og bað okkur öll að standa saman. Þetta er ekki búið.

Alþingi hefur enn næstum ekkert fjallað um þau skertu mannréttindi sem landsmenn búa við. Hvorki heilbrigðisráðherra né forsætisráðherra hafa verið til svara í sérstakri umræðu í þinginu um mannréttindi og stjórnarfar á tímum COVID.

Fjölmiðlar birta greinar og reiðilestra þeirra sem kvarta undan fólki sem er annt um frelsi sitt og annarra borgara. Talsmenn mannréttinda lýsa hins vegar áhyggjum af því að enginn sé á vakt.

Við Íslendingar getum prísað okkur sæl fyrir að aðgerðir hér hafa verið mildari en víða annars staðar. Útgöngubann hefur gilt í nokkrum Evrópuríkjum. Á Indlandi fær fólk í sóttkví stimpil með slagorðum stjórnvalda á vinstri höndina. Í Suður-Kóreu birtu stjórnvöld lista með nöfnum þeirra sem sæta sóttkví. Víðtækt rafrænt eftirlit hefur verið tekið upp í fjölda ríkja, undir yfirskini sóttvarna.

Við höfum sloppið nokkuð vel, en okkur er bæði rétt og skylt að hafa áhyggjur. Við eigum ekki að samþykkja umyrðalaust að gengið sé á grundvallarfrelsi okkar og réttindi sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra mannréttindsamninga.

Áhyggjur af þessum skerðingum eru sjaldnast komnar til af því að okkur langi svo á djammið, í ræktina eða norður á skíði. Þær varða heldur ekki nema óbeint þær efnahagslegu afleiðingar sem ríða nú yfir með fjölda gjaldþrota og óheyrilegum atvinnumissi. Þær varða ískyggileg langtímaáhrif: viðhorf okkar sjálfra og ungu kynslóðarinnar til mannréttinda og neikvæð áhrif á stjórnarhætti ríkja og ráðandi afla um allan heim.

Við verðum bara einu sinni sextán ára og byrjum flest aðeins einu sinni í framhaldsskóla, þaðan sem við eigum minningar um fyrstu ástina, dýpstu sannfæringu og vini, sem áratugum síðar eiga enn stóran sess í lífi okkar. Þær fórnir sem börnin færa vegna sóttvarnaaðgerða eru risavaxnar og óvíst að þau geri sér sjálf grein fyrir hve lífsbreytandi þær geta verið. Það er ekki verið að slá unglingsárum þeirra á frest, heldur stytta þau, mögulega umtalsvert. Börn og ungmenni sem sett hafa verið í sóttkví og einangrun vegna COVID mega ekki upplifa þá frelsissviptingu sem sjálfsagðan hlut. Þau mega vera reið. Vonandi eru þau reið.

Auðvitað er samstaða mikilvæg. Kjörnir fulltrúar okkar verða þess vegna að setja í forgang að eiga samtal um aðgerðirnar sem sett hafa líf okkar allra á hliðina. Það er ekki hlutverk þríeykisins að svara spurningum um mannréttindi, heldur stjórnmálafólks sem hefur undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni.