Við lifum í heimi þar sem í­myndin virðist taka fram fyrir hendur raun­veru­leikans og ég velti því fyrir mér hvort það sé þess vegna sem Spán­verjar skamma mig ef ég fer í lang­erma flík áður en sumri líkur.

Og ef ég hef orð á því, áður en haustar, að veðrið sé svalt sýna þeir mér hunds­rass svo ég er farinn að skynja þá skýlausu kröfu þeirra um að ég skuli þrauka í stutt­buxum og hlýra­bol uns almanakið hafi kveðið á um enda­lok sumars.

Virðast þeir óttast frétta­flutning á við þennan: Moo­dys lækkaði Spán í dag úr sólar­landa­flokki niður í góð­viðris­flokk. Á­kvörðunin kemur í kjöl­far þess að nor­rænn pistla­skrifari sást í hlífðar­flíkum þar í landi síðast­liðinn fimmtu­dag.

Við Ís­lendingar könnumst líka við það að ekki megi „tala landið eða heil­brigðis­kerfið niður“, líkt og vandinn raun­gerist fyrst þegar talað er um hann.

Svo vitum við að halli ríkis­sjóðs og fylgi Fram­sóknar­flokksins fer alveg eftir því hver segir frá. Af hverju ætti veður­farið á Spáni þá ekki að fara eftir því hvernig talað er um hita­stigið?

Því kannski gerist ekkert í raun nema aðrir skynji það líka. Alla­vega spyr Kaninn hvort hljóð komi frá fallandi tré úti í skógi ef enginn er ná­lægt til að heyra það og Ís­lendingar spyrja hvort Eyjólfur sé ekki bara nokkuð hress ef enginn er vitni að sorgum hans.

Því geta Spán­verjar nú tekið gleði sína á ný því ég er hættur að skrifa pistla og því getur spænska regnið fallið eins og bak­þanki sem enginn skrifar.