Öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs mæta árlega á hátíðlega Viðurkenningarhátíð FKA, þegar veittar eru viðurkenningar til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Ferlið er þannig að FKA kallar eftir tilnefningum sem skipuð dómnefnd metur og velur hver hlýtur FKA Viðurkenninguna, FKA Þakkarviðurkenninguna og FKA Hvatningarviðurkenninguna.

Þetta eru þekktar og minna þekktar konur af landinu öllu, sem vakið hafa athygli sem fyrirmyndir í sínu nærsamfélagi og/eða á alþjóðavísu, ekki bara meðal kvenna og stúlkna, heldur okkar allra. Það er svo gaman að gleðjast og fylgjast með fólki ná markmiðum sínum, enda er fólk gjarnan búið að leggja inn og fórna á löngum köflum í lífinu þegar loksins kemur að uppskeru. Auðvitað eru áskoranir á vegi okkar og ómögulegt að gera sér í hugarlund hve mikið er þarna undir, en á sama tíma og lífið sökkar reglulega þá er margt að þakka fyrir hér á Klakanum.

Konur sem rutt hafa brautir má nefna í þessu sambandi og það er mikilvægt að þakka þeim, láta konur finna fyrir virði sínu og hvetja þær áfram. Þetta er meðal þess sem gert er hjá Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA, sem tekur að sér með glöðu geði að vera alvöru hreyfiafl á ýmsan hátt, meðal annars með því að heiðra konur á árlegri FKA Viðurkenningarhátíð í janúar ár hvert.

Ærslabelgurinn Ísland

En FKA er ekki bara hreyfiafl, heldur höndlar félagið einnig með sýnileika og tengslanet. Lögð er áhersla á jafnvægi og fjölbreytileika, ásamt fjölmörgum breytum og á spennandi tímum sem þessum hvetjum við einstaklinga til að gera tilraunir, að við leyfum okkur að gera mistök, sköpum okkur, endursköpum og jöfnum stöðuna í leiðinni.

Þrátt fyrir að Ísland sé þessi svaðalegi ærslabelgur er kemur að jafnréttismálum, þá þarf að standa vaktina til að koma í veg fyrir stöðnun og bakslag er kemur að jöfnum tækifærum. Við beinum kastaranum að flottum fyrirmyndum, fjölbreytileika og óskum eftir nöfnum, fjölbreyttum hópi kvenna á lista, af öllu landinu, sem dómnefnd mun vinna með og á endanum velja þær konur sem verða heiðraðar á Grand Hótel Reykjavík 20. janúar 2022. Konurnar sem tilnefndar eru þurfa ekki að vera félagskonur FKA, hægt er að tilnefna í einum flokki eða öllum og allir geta sent inn tilnefningu á heimasíðu FKA til og með 25. nóvember 2021.

Taktu þátt í dag og vertu hreyfiafl með okkur. Hvaða konur vilt þú heiðra á FKA Viðurkenningarhátíðinni?