Það er mikil pressa um þessar mundir að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Ég er frekar týndur á því sviði.

Ég þekki hins vegar vel verstu útgáfuna af sjálfum mér. Hún kemur fram þegar ég lendi í bið á flugvöllum.

Ferlið er svona: Eftir glæpsamlega lítinn svefn mæti ég fullur tilhlökkunar út í Leifsstöð. Hressi mig jafnvel við á Loksins. Fram undan er jú meginlandið í allri sinni dýrð.

Þá byrjar ballið. Seinkun. Til að byrja með reynir maður að bera sig vel og brosa. Starfsfólkið, sem er þrautþjálfað í smáskammtafræðunum, segir manni að þetta sé bara 20 mínútna bið. Svo fer 20 mínútunum að fjölga og þær breytast í klukkustundir. Smám saman þykknar yfir. Í stað þess að borða hádegismat við Eiffel-turninn og lepja eitthvert dýrindis rauðvín sit ég fastur á flugvelli með roast beef samloku og volgan Svala.

Versta útgáfan er til alls vís á þessum tímapunkti. Fer jafnvel að tuða í starfsfólkinu við landganginn og efast um að það sé að vinna vinnuna sína.

Á nokkurn veginn þessum stað er sálarlíf þjóðarinnar um þessar mundir. Við erum búin að heyra það ansi oft að það sé bara stutt eftir og allt fari að lagast. En við bíðum enn. Þráðurinn er orðinn stuttur og samstaðan brothætt. Jafnvel minnstu hlutir trufla. Af hverju fær þessi að mæta í ræktina á meðan ég má ekki fara í sund? Hver er munurinn á göngutúr og golfhring?

Versta útgáfan af mér endist þó allajafna ekki lengi enda hafa hlutirnir tilhneigingu til að fara vel. Ljúfa lífið á meginlandinu verður á sínum stað þótt maður hafi misst af hádegismatnum og jafnvel kaffinu líka.