Í miðborg Parísar er torg sem hét einu sinni Torg Loðvíks XV. Á miðju torginu stóð stytta af Loðvík XV., konungi Frakka. En styttan fékk ekki að standa lengi. Árið 1789 hófst franska byltingin. Styttan af Loðvík var rifin niður. Í hennar stað var reist fallöxi á torginu sem fékk nýtt nafn: Byltingartorgið. Ríkjandi konungur var hálshöggvinn, skrifuð var stjórnarskrá og hugmyndir um lýðræði tóku að breiðast út.

Sex árum fyrr, árið 1783 hófst eitt mesta eldgos Íslandssögunnar: Skaftáreldar. Hraunkvikan lagði tugi bæja í eyði og olli eitruð gjóskan mikilli mengun um allt land og gífurlegum búfjárdauða. Talið er að tíu þúsund manns, eða fimmtungur þjóðarinnar, hafi látið lífið.

Það voru ekki aðeins skyndilegar óvinsældir konunga sem ollu frönsku byltingunni. Eitruð gjóska úr Skaftáreldum dreifðist um allt norðurhvel jarðar og olli í mörgum löndum kulda og uppskerubresti. Margir telja ástæður frönsku byltingarinnar hafa verið efnahagslegar; fólk krafðist betri lífskjara í kjölfar uppskerubrests sem rekja mátti til eldgossins á Íslandi.

Ekki þarf annað en að opna dagblað og það blasir við: Veröldin er garnhnykill; allt er samtvinnað.

  • Í vikunni vöruðu vísindamenn við veikingu hafstrauma sem flytja hlýjan sjó norður á bóginn. „Það er ekkert eitt sem hefur jafnmikil áhrif á hitafar hér hjá okkur eins og meðalhitinn í sjónum, af því að við erum eyja úti í miðju Atlantshafi,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, en hringrás Golfstraumsins gerir Ísland byggilegt.
  • Samkvæmt fréttabréfi landlæknis jókst einmanaleiki hér á landi á síðasta ári. Afleiðingarnar eru margþættar en rannsóknir sýna að skortur á félagstengslum er jafnhættulegur heilsunni og reykingar.
  • Sandfok frá Saharaeyðimörkinni barst nýverið alla leið til Frakklands. Í ljós kom að sandkornin eru geislavirk. Rekja má geislarykið aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar þegar Frakkar gerðu tilraunir með kjarnorkuvopn í eyðimörkinni.
  • Bóluefni gegn COVID-19 kláraðist fyrr en ætlað var í Laugardalshöll í vikunni. „Enginn er óhultur fyrr en allir eru óhultir,“ sagði Tedros Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og biðlaði til ríkra þjóða að tryggja fátækum ríkjum aðgengi að bóluefni. Á sama tíma rifust menn um það hvort þakka ætti einkaframtakinu eða ríkisframtakinu fyrir þróun COVID-19 bóluefnanna. Hagfræðingurinn Mariana Mazzucato skammaði heiminn fyrir að hefja á stall frumkvöðulinn í eintölu og færði rök fyrir því að allar helstu tækni- og vísindaframfarir síðustu áratuga – Google, iPhone-inn, framfarir í læknis- og lyfjafræði – byggðu á afrakstri rannsókna sem fjármagnaðar hefðu verið með skattfé, rannsóknir sem leiddu af sér internetið, GPS-tæknina, snertiskjáinn og örflöguna.

Tíðarandinn og veruleikinn

Enginn er eyland. Nema einn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stendur keikur í auglýsingu fyrir flokkinn ásamt tilvitnun: „Okkar stefna snýst um að veðja á einstaklinginn.“

Fréttir herma að heimurinn sé jafnvel enn tengdari en við héldum. Samkvæmt nýrri rannsókn doktorsnema í landafræði við Arizonaháskóla, ollu Skaftáreldar hungursneyð meðal Inúíta í Alaska.

Jörð skelfur og eldgos ógnar á ný. Frakkar fjarlægðu styttuna af Loðvík XV. í kjölfar eldhræringa á Íslandi. En ekki einu sinni hamfarir fá haggað pólitískri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Vatnsgreiddir í teinóttu standa Sjálfstæðismenn staðfastir við sjónvarpsskerm og tilbiðja skurðgoð sitt frá níunda áratugnum, Gordon Gekko, óskilgetið afkvæmi Thatcher og Reagan, með Maxí popp í annarri og ÍsCola í hinni, ótengdir við strauma, stefnur, orsakir, afleiðingar, aðra menn og móður náttúru; sambandslausir við tíðarandann og veruleikann.