Í einu áhrifamesta ritverki allra tíma ferðast austurríski stíljöfurinn Stefan Zweig frá þeirri vongleði sem skein úr andlitum Evrópumanna við dagsbrún síðustu aldar til þess örvænis sem lesa mátti úr sömu ásjónum um miðbik þessa sama árhundraðs.
Áfallið mikla var Zweig um megn. Lífslöngunin hvarf eftir endurtekin heimsstríð. Mannkynið gæti ekki búið í sátt og friði.
Ekki eru liðnir nema tveir áratugir af nýrri öld þegar Evrópubúar horfa fram á miskunnarlausa innrás Rússa í Úkraínu þar sem saklausir íbúar eru stráfelldir í heimahúsum og á götum úti – og þeir hinir sem eftir lifa hírast í sundurskotnum byggingum og neðanjarðarbyrgjum.
Sagan endurtekur sig. Enn einu sinni verður fólki hugsað um veröld sem var.
Líkurnar á að friðurinn sé úti á komandi tímum, eins og raunin var á síðustu öld, eru meiri en minni. Þjóðir heims eru að fylkja sér í tvær ólíkar fylkingar. Svo er nú komið að lýðræðið og andlýðræðið standa andspænis hvort öðru, grá fyrir járnum.
Ekki eru liðnir nema þrír áratugir frá því ríkin sem kenna sig við G7, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada, Japan og Þýskaland, höfðu yfir að ráða tvöfalt meiri herstyrk en hinar svokölluðu Briks-þjóðir, Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka, en þær hafa bundist sterkum böndum á síðustu áratugum.
En þróunin í vopnabúrinu er öll á einn veg. Þegar aldarfjórðungur er að verða liðinn af nýrri öld er álitið að herstyrkur G7-ríkjanna og Briks-hópsins sé álíka mikill. Hlutföllin hafa riðlast, þeim síðarnefndu í hag.
Og þau eiga eftir að riðlast enn frekar. Sérfræðingar í varnar- og öryggismálum telja allar líkur vera á því að um miðja öldina muni Briks-þjóðirnar ráða yfir helmingnum af öllum hergögnum þessa heims, en G7-löndin aðeins fimmtungnum af vígvélunum.
Þetta eru herfræðilegar hamfarir, slíkar eru og verða breytingarnar í hervæðingu heimskringlunnar á einum mannsaldri eða svo.
Til viðbótar verða Evrópubúar að rýna í mögulegar afleiðingar þess að Bandaríkin gangi úr skaftinu í þessum efnum. Augljóst er að þar í landi vaða uppi einangrunar- og aðskilnaðaröfl sem hafa ímugust á þeim opna og alþjóðlega heimi sem stjórnvöld í Washington hafa löngum trúað á.
Fjölmargir stjórnmálaskýrendur segja ekki lengur nokkra framtíð í því að byggja Atlantshafsbandalagið upp í kringum Bandaríkin. Evrópa verði að geta staðið á eigin fótum með varnir sínar og öryggi.
Og Ísland er þar á meðal.